Ætlar ÁTVR að vaxa úr vandanum?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Það hefur mælst tveggja stafa hiti víða um land í vikunni og sólin hefur skinið. Á slíkum dögum biðja veðurbarnir Íslendingar um fátt meira. Við gleymum því samt ekki að verkefnin eru ærin um þessar mundir. Við erum vonandi að komast yfir enn einn hjallann þar sem lægri verðbólgutölur og langtímasamningar á almennum vinnumarkaði ylja ekki síður en vorsólin. Hagvöxtur er mikill og atvinnustig hátt.

Ný Vínbúð í Mjódd

Það er í mörg horn að líta og mikilvægt að við þingmenn veitum stjórnvöldum ríkt aðhald, í stóru jafnt sem smáu. Eitt slíkt dæmi er áætlun ÁTVR um stækkun dreifingarmiðstöðvar og nýjan útsölustað í Mjódd. Það er vandséð hvernig slíkar fyrirætlanir samrýmast markmiðum stjórnvalda um að beita ríkisfjármálum til þess að vinna gegn verðbólgu, m.a. með því að draga úr fjárfestingarumsvifum ríkisins.

Raunar er vandséð hvernig útþensla ÁTVR rímar við þær upplýsingar að sala ÁTVR á áfengi hafi dregist saman. Ég hef því lagt fram fyrirspurn á Alþingi til fjármála- og efnahagsráðherra og óskað eftir upplýsingum um framangreint. Það verður fróðlegt að heyra svör ráðherrans. Þau berast e.t.v. um svipað leyti og svör heilbrigðisráðherra við fyrirspurn minni um ÁTVR og stefnu stjórnvalda í áfengismálum.

Fyrirspurnin lýtur m.a. að því hvernig fjölgun útsölustaða ÁTVR og vegalengdin milli þeirra samræmist markmiðum stjórnvalda um að takmarka aðgengi að áfengi. Sömuleiðis hef ég óskað eftir upplýsingum um fjölda áfengisverslana ríkisins miðað við höfðatölu í samanburði við önnur lönd með ríkiseinokun á áfengissölu.

Launasamsetning ríkisstarfsmanna

Launakostnaður ríkisins hefur vaxið gríðarlega og óhætt er að segja að hann sé orðinn sligandi. Ríkisstarfsmönnum hefur fjölgað mikið og laun opinberra starfsmanna hafa hækkað hraðar en laun á almennum vinnumarkaði. Það er því ekki að undra að stjórnvöld hafi sett fram kröfur um mikla hagræðingu í launakostnaði. Þar gæti verið skynsamlegt að skoða launasamsetningu ríkisstarfsmanna.

Því hef ég lagt fram fyrirspurn á þinginu til fjármála- og efnahagsráðherra um yfirvinnu ríkisstarfsmanna, m.a. um hlutfall yfirvinnu af heildarlaunum og um meðalfjölda yfirvinnustunda þeirra starfsmanna sem hafa fengið greidda yfirvinnu. Ég tel það mikilvægt að við þekkjum stefnu stjórnvalda varðandi yfirvinnugreiðslur hjá ríkinu.

Sumar stofnanir birta ekki

Opnirreikningar.is er mikilvægt tæki til að fylgjast með greiddum reikningum ráðuneyta og stofnana úr bókhaldi ríkisins. Vefurinn er uppfærður mánaðarlega og með honum eykst gagnsæi og aðgengi almennings að fjárhagsupplýsingum stjórnvalda. Það virðist hins vegar ekki algilt að stofnanir ríkisins birti upplýsingarnar á vefnum. Ég hef því óskað eftir skýringum á því með fyrirspurn á Alþingi.

Þetta eru aðeins nokkur dæmi um það hvernig við þingmenn getum fylgst með og fylgt því eftir að stjórnvöld leggi allt kapp á að tryggja aukinn stöðugleika með ábyrgri stefnu í ríkisfjármálum. Fólkið, fjölskyldurnar og fyrirtækin í landinu treysta á að við tryggjum að jákvæðar efnahagsspár gangi eftir. Enn betri lífskjör landsmanna verða ekki að raunveruleika nema fyrir fórnir og skýra forgangsröðun.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 23. apríl 2024