Nú duga engin vettlingatök

Borgarstjórnarflokkur Sjálfstæðisflokksins kom í dag fyrir 1.600 barnavettlingum í Tjarnasal ráðhússins til þess að minna borgarstjóra og borgarstjórn á leikskólavandann.

„Hver vettlingur táknar þau sextán hundruð reykvísku börn sem eru á biðlistum eftir leikskólaplássum í borginni. Sjálfstæðisflokkurinn hefur um langt skeið vakið athygli á fyrirhyggjuleysi meirihlutans í málinu sem aðhefst ekkert, þrátt fyrir ýmsar tillögur okkar sem allar miða að því að auka þjónustu, fjölga valkostum og stytta þessa biðlista,” segir Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík.

Sjálfstæðisflokkurinn í Reykjavik hefur undanfarið lagt til ýmsar tillögur fyrir borgarstjórn sem grynnkað geti á biðlistum barna í borginni. Sem dæmi hefur flokkurinn lagt til að farið sé af stað í tilraunaverkefni þar sem börn gætu byrjað í grunnskóla við fimm ára aldur í stað sex ára. Það geti leyst mönnunarvanda í leikskólum og bætt tækifæri íslenskra ungmenna í menntun en þau myndu þá útskrifast fyrr. Þá hefur flokkurinn einnig lagt til heimgreiðslur, að komið verði upp daggæslu á vinnustöðum og að stuðningur við sjálfstætt starfandi leikskóla verði aukinn.

„Við höfum kynnt fjölmargar lausnir undanfarið sem gætu leyst vandann eða að minnsta kosti grynnkað á biðlistum. Það virðist ekki skipta máli hvort borgarstjórinn heiti Dagur eða Einar, ekkert virðist þokast í þessum efnum og engar breytingar í augsýn,” segir Hildur jafnframt.