Aukin miðstýring aldrei svarið

Teitur Björn Einarsson alþingismaður og formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis:

Í umræðu á Alþingi um fjár­mála­áætl­un fyr­ir árin 2025-2029 hef­ur stjórn­ar­andstaðan haldið því fram að óstjórn ríki í efna­hags­mál­um. Það er mál­flutn­ing­ur sem stenst ekki skoðun eins og hér verður rakið.

Útlit er fyr­ir að hag­vöxt­ur verði 1,5% í ár og tvö­fald­ist á næsta ári. At­vinnu­leysi hér á landi er lítið í alþjóðleg­um sam­an­b­urði og gera spár ráð fyr­ir að það verði að meðaltali 4,2% á ár­inu. Þá er skuld­astaða ís­lenskra heim­ila traust og hef­ur ekki verið lægri í um tvo ára­tugi, í hlut­falli við hvort held­ur ráðstöf­un­ar­tekj­ur eða eign­ir.

Í þessu sam­hengi er rétt að benda á að efna­hags­bat­inn eft­ir heims­far­ald­ur­inn hef­ur verið mjög hraður og sterk­ur. Árið 2022 var hag­vöxt­ur á Íslandi 8,9%. Það er mesti hag­vöxt­ur sem mælst hef­ur í rúma hálfa öld. Á síðasta ári var hag­vöxt­ur 4,1% á meðan efna­hags­um­svif á evru­svæðinu hafa síðustu ár svo gott sem staðið í stað.

Staðan er því traust þótt vit­an­lega séu blik­ur á lofti; auk­in óvissa vegna elds­um­brota á Reykja­nesi og óvissa um áhrif óstöðug­leika og auk­inn­ar spennu á alþjóðavett­vangi á þróun verðlags. Til að sporna gegn mik­illi og viðvar­andi verðbólgu hef­ur Seðlabank­inn þurft að hækka stýri­vexti og standa þeir nú í 9,25%. Það eru háir vext­ir og þeir bíta fast. Heim­ili og fyr­ir­tæki hafa sann­ar­lega fundið fyr­ir áhrif­um vaxta­stigs­ins.

Þrátt fyr­ir þetta hef­ur kaup­mátt­ur ekki dreg­ist sam­an, líkt og í mörg­um ná­granna­land­anna, og er út­lit fyr­ir 1,5% kaup­mátt­ar­aukn­ingu á þessu ári, en hún nam 1% í fyrra. Lífs­kjara­sókn síðustu 10 ára hef­ur þannig verið var­in.

Öguð og ábyrg hag­stjórn

Efna­hags­horf­ur eru já­kvæðar og miðar ör­ugg­lega í rétta átt þrátt fyr­ir gíf­ur­leg áföll inn­an­lands vegna yf­ir­stand­andi nátt­úru­ham­fara á Reykja­nesi. Þar mun­ar mest um taum­hald pen­inga­stefn­unn­ar sem hef­ur hægt á efna­hags­um­svif­um inn­an­lands og dregið úr verðbólguþrýst­ingi sam­hliða því að verðbólga hef­ur hjaðnað nokkuð hratt í helstu viðskipta­lönd­um. Það er því út­lit fyr­ir að verðbólga hjaðni hægt en ör­ugg­lega og verði að meðaltali 5,2% í ár og um 3,2% á næsta ári.

Öguð og ábyrg stjórn rík­is­fjár­mála sam­ferða aukn­um fyr­ir­sjá­an­leika, sem fylg­ir ný­gerðum kjara­samn­ing­um á al­menn­um vinnu­markaði, mun skapa skil­yrði fyr­ir lækk­un vaxta. Áhersl­ur nýrr­ar rík­is­stjórn­ar und­ir for­sæti Bjarna Bene­dikts­son­ar, eins og þær birt­ast í fjár­mála­áætl­un næstu fjög­urra ára, benda til að svo geti vel orðið. Það er því til­efni til bjart­sýni.

Til framtíðar litið

Til að auka megi hag allra lands­manna til framtíðar litið skipt­ir mestu máli að fólki og fyr­ir­tækj­um sé búið um­hverfi til að nýta tæki­fær­in. Fjölga þarf stoðum hag­kerf­is­ins, ryðja veg at­vinnu­upp­bygg­ing­ar og tryggja áfram­hald­andi vöxt at­vinnu­greina um land allt. Til að svo megi verða þarf að efla sam­keppn­is­hæfni ís­lensks efna­hags­lífs, ein­falda reglu­verk og beisla meiri orku.

Á Alþingi er tek­ist á um réttu leiðina fram á við. Áfram­hald­andi lífs­kjara­sókn grund­vall­ast ekki á auk­inni miðstýr­ingu og hærri skött­um á fólk og fyr­ir­tæki. Hún grund­vall­ast á um­hverfi sem ýtir und­ir frum­kvæði og atorku­semi fólks svo auka megi hag allra lands­manna til framtíðar enn frek­ar. Það skipt­ir nefni­lega máli hverj­ir fara með stjórn lands­ins og hvernig haldið er á mál­um. Árang­ur síðustu ára, þrátt fyr­ir marg­vís­leg áföll, staðfest­ir það.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. apríl 2024.