Upplýsingaóreiða um hlutverk utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra:

Und­an­farið hef­ur hug­takið upp­lýs­inga­óreiða (e. in­formati­on disor­der) verið mikið til umræðu. Í um­deild­um mál­um og þegar mikl­ir hags­mun­ir eru í húfi virðist upp­lýs­inga­óreiða oft skjóta upp koll­in­um. Nokk­ur brögð eru að því að gripið sé til þessa í ís­lensk­um stjórn­mál­um þótt aðferðin sé út­breidd­ari í öðrum heims­hlut­um.

Und­an­farið hafa mér borist fyr­ir­spurn­ir úr mörg­um átt­um um af hverju ég hafi sem ut­an­rík­is­ráðherra ákveðið að veita Venesúela­bú­um sér­staka vernd hér á landi. Í fyrstu gerði ég ráð fyr­ir, og taldi aug­ljóst, að um mis­skiln­ing væri að ræða enda hafði ég sem ut­an­rík­is­ráðherra ekk­ert for­ræði yfir þess­um mál­um og ákvörðunum þeim tengd­um. Ég taldi þessa staðreynd máls aug­ljósa og gerði ráð fyr­ir því að þetta væri öll­um ljóst, enda heyra út­lend­inga­mál ekki und­ir ut­an­rík­is­ráðuneytið.

Áfram fékk ég samt fyr­ir­spurn­ir. Blaðamaður Morg­un­blaðsins hafði áður haldið þessu fram í þætti Dag­mála síðastliðið haust. Stein­inn tók úr þegar þátt­ar­stjórn­andi í Viku­lok­un­um á Rík­is­út­varp­inu hélt þessu fram full­um fet­um án mót­mæla eða at­huga­semda frá viðmæl­end­um í fe­brú­ar síðastliðnum. Full­yrðing­in kom sömu­leiðis fram í vin­sæl­um hlaðvarpsþætti og nú ný­lega birt­ist full­yrðing­in á prenti í Viðskipta­blaðinu: „Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ákvað af ein­hverj­um óskilj­an­leg­um ástæðum að opna landið fyr­ir fólki frá Venesúela…“

Þess­ar full­yrðing­ar eru kolrang­ar. Útlend­inga­mál­in, og þ.m.t. mál­efni kær­u­nefnd­ar út­lend­inga­mála, voru ekki á minni könnu sem ut­an­rík­is­ráðherra Íslands, ekki frek­ar en mál­efni Land­spít­al­ans eða Sin­fón­íu­hljóm­sveit­ar Íslands. Aðrir ráðherr­ar báru ábyrgð á mála­flokkn­um.

Þrátt fyr­ir þessa staðreynd flýg­ur sag­an áfram og upp­lýs­inga­óreiðan eykst þar sem einn end­ur­tek­ur um­mæli ann­ars. Það er ekki annað hægt en að velta vöng­um yfir því hvort ein­fald­lega sé um að ræða mis­skiln­ing eða hvort ásetn­ing­ur liggi að baki þeirri und­ar­legu og röngu sögu­skýr­ingu að ut­an­rík­is­ráðherra beri ábyrgð á ákvörðun sjálf­stæðrar stjórn­sýslu­nefnd­ar á mál­efna­sviði dóms­málaráðuneyt­is­ins um aukna vernd íbúa Venesúela.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 18. apríl 2024.