Botnlaus sparigrís

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Borg­ar­bú­ar eiga ríka hags­muni af traust­um innviðum sam­fé­lags­ins. Á tím­um orku­skorts og álags á bæði orku­innviði og veitu­kerfi verður að telja óá­byrgt að samþykkja til­lögu stjórn­ar Orku­veit­unn­ar um sex millj­arða arðgreiðslu til eig­enda á næsta aðal­fundi.

Versn­andi af­koma en hækk­andi arðgreiðslur

Sam­kvæmt nýbirt­um árs­reikn­ingi Orku­veitu Reykja­vík­ur skilaði sam­stæðan af­komu sem var nær sjö millj­örðum lak­ari en áætl­un hafði gert ráð fyr­ir. Jafn­framt versnaði af­koma sam­stæðunn­ar sem nam nærri tveim­ur millj­örðum milli ár­anna 2022 og 2023.

Þrátt fyr­ir versn­andi af­komu í rekstri OR ákvað meiri­hluti stjórn­ar Orku­veit­unn­ar að leggja til við aðal­fund arðgreiðslu til eig­enda sem nema skyldi sex millj­örðum króna, eða nær öll­um hagnaði sam­stæðunn­ar á liðnu ári. Þá vek­ur jafn­framt at­hygli að arðgreiðslu­til­lag­an er tæp­lega millj­arði hærri en arðgreiðslu­áætlun gerði ráð fyr­ir.

Minni­hluti stjórn­ar­manna greiddi at­kvæði gegn til­lög­unni og færði rök fyr­ir af­stöðunni í grein­argóðri bók­un.

Fjár­fest­um í innviðum

Á borg­ar­stjórn­ar­fundi liðinn þriðju­dag lögðu full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks til að fallið yrði frá arðgreiðslu­kröfu á Orku­veitu­sam­stæðuna og arðgreiðslu­til­lögu stjórn­ar hafnað á aðal­fundi 17. apríl nk. Borg­ar­stjórn kaus hins veg­ar að fresta til­lög­unni og verður hún því lögð fyr­ir fund borg­ar­ráðs í dag.

Á tím­um orku­skorts og gríðarlegs álags á orku­innviði lands­ins verður arðgreiðslu­til­laga stjórn­ar að telj­ast veru­lega óá­byrg. Ekki síður með hliðsjón af vax­andi álagi á mik­il­væg veitu­kerfi borg­ar­inn­ar. Fyr­ir­hugaðar fjár­fest­ing­ar OR á ár­un­um 2024 til 2028 munu nema um 229 millj­örðum króna sam­kvæmt fyr­ir­liggj­andi fjár­hags­áætl­un og vega þar þyngst fjár­fest­ing­ar í veitu­kerf­um og orku­ver­um.

Hvorki af­koma OR-sam­stæðunn­ar né held­ur kjör á fjár­magns­mörkuðum gefa til­efni til að greiða svo ríf­leg­an arð til eig­enda. Ekki síst með hliðsjón af þeirri gríðarlegu innviðaupp­bygg­ingu sem fyr­ir­huguð er. Taka má und­ir þau sjón­ar­mið minni­hluta stjórn­ar OR, að jafn­vel þótt eig­end­ur OR vilji njóta ávöxt­un­ar af því fjár­magni sem bundið er í rekstri sam­stæðunn­ar er eðli­legt að þau sjón­ar­mið víki fyr­ir þeim mik­il­vægu hags­mun­um sem borg­ar­bú­ar eiga und­ir traust­um innviðum sam­fé­lags­ins.

Innviðafyr­ir­tæki í al­manna­eigu

Auðvitað eru arðgreiðslur til eig­enda í góðu ár­ferði sjálf­sagðar og eðli­leg­ar í hefðbundn­um fyr­ir­tækja­rekstri. Orku­veit­an er þó byggð á öðrum grunni – hún er innviðafyr­ir­tæki í al­manna­eigu. Lög­bundið hlut­verk henn­ar er að stunda vinnslu, fram­leiðslu og sölu raf­orku og heits vatns og gufu. Jafn­framt rekst­ur grunn­kerfa, svo sem dreifi­veitu raf­magns, hita­veitu, vatns­veitu og frá­veitu. Óábyrg arðgreiðslu­áform grafa und­an rekstri Orku­veit­unn­ar, en svo hún geti staðið und­ir lög­bundu hlut­verki sínu þarf hún að fjár­festa í og viðhalda mik­il­væg­um innviðum.

Rekst­ur borg­ar­sjóðs er kom­inn í slíkt öngstræti að markaður­inn hef­ur misst alla til­trú. Það birt­ist glöggt í liðnum skulda­bréfa­út­boðum hvar áhugi var svo tak­markaður að borg­in sá sér aðeins fært að taka til­boðum fyr­ir smá­leg­ar fjár­hæðir á afar­kjör­um. Það er löngu tíma­bært að meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar bregðist við ósjálf­bær­um rekstri borg­ar­sjóðs með skýr­um aðgerðum og áþreif­an­legri hagræðingu – en leiti ekki sí­felldra plástr­a­lausna.

Koma þarf í veg fyr­ir að full­trú­ar meiri­hluta borg­ar­stjórn­ar nýti sjóði Orku­veit­unn­ar sem óþrjót­andi sparig­rís þegar illa árar í rekstri borg­ar­inn­ar. Standa þarf vörð um þá mik­il­vægu hags­muni sem borg­ar­bú­ar eiga af traust­um innviðum og lang­tíma orku­ör­yggi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 11. apríl 2024.