Grindavík 50 ára

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra:

Grind­ar­vík­ur­bær fagn­ar í dag 50 ára kaupstaðarrétt­ind­um sín­um. Það eru tíma­mót sem vert er að minn­ast.

En þó að manni finn­ist 50 ár ekki vera lang­ur tími í þessu sam­hengi nær saga Grinda­vík­ur mun lengra aft­ur enda hef­ur verið sam­felld byggð í Grinda­vík frá land­námi.

Líf og byggð hef­ur frá upp­hafi þró­ast í Grinda­vík í kring­um sjó­mennsku. Stutt hef­ur verið á far­sæl fiski­mið þrátt fyr­ir að á árum áður hafi inn­sigl­ing­in í Grinda­vík verið vara­söm enda voru sjó­slys tíð og marg­ir sem týndu lífi við þessa mik­il­vægu at­vinnu­grein. Marg­ir sneru ekki til baka úr róðri. Grind­vík­ing­ar hafa enda verið í far­ar­broddi á Íslandi við að koma upp björg­un­ar­viðbragði en í Grinda­vík var það sr. Odd­ur V. Gísla­son prest­ur sem barðist fyr­ir að auka ör­yggi sjófar­enda og má segja að sú bar­átta hafi leitt til stofn­un­ar bjargráðafé­laga um land allt.

Grind­vík­ing­ar hafa þannig mót­ast af nánu sam­býli við óblíð nátt­úru­öfl. Ávallt hef­ur sjór­inn minnt á sig og nú síðustu miss­er­in hef­ur jörðin skolfið og hrein­lega gefið sig und­ir Grinda­vík. Grind­vík­ing­ar þekkja það best að menn­irn­ir áforma en nátt­úr­an ræður.

Það hef­ur verið aðdá­un­ar­vert að fylgj­ast með Grind­vík­ing­um síðustu mánuði, hvernig þeir hafa tek­ist á við erfiðar aðstæður og bar­ist hetju­lega við móður nátt­úru. En því miður erum við agn­arsmá í þeirri bar­áttu og meg­um okk­ar lít­ils. Við mun­um þó áfram gera allt sem í okk­ar valdi stend­ur til að gera líf Grind­vík­inga bæri­legt og skapa frek­ari for­send­ur til byggðar í Grinda­vík, þegar aðstæður skap­ast til slíks.

Í ár­anna rás hef­ur sýnt sig að Grinda­vík er ein­stakt sam­fé­lag með blóm­legt at­vinnu­líf, sam­heldni og grósku. Það er eng­um vafa und­ir­orpið að Grinda­vík hef­ur verið eitt af dug­mestu sveit­ar­fé­lög­um lands­ins og ef eitt­hvert sveit­ar­fé­lag get­ur byggt upp öfl­uga starf­semi á ný þá er það Grinda­vík. Stjórn­völd munu hér eft­ir sem hingað til standa með Grind­vík­ing­um í að tak­ast á við þær áskor­an­ir sem blasa við.

Á fimm­tíu ára af­mæli sveit­ar­fé­lags­ins vil ég senda Grind­vík­ing­um nær og fjær mín­ar inni­leg­ustu ósk­ir um bjarta framtíð. Til ham­ingju með dag­inn, Grinda­vík.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. apríl 2024.