Bjarni Benediktsson forsætisráðherra Íslands

Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokkins tók í dag við lyklum að forsætisráðuneytinu af Katrínu Jakobsdóttur og er þar með þrítugasti forsætisráðherra Lýðveldisins Íslands.

Bjarni er með reynslumestu stjórnmálamönnum Íslands en hann kom fyrst á þing árið 2003. Hann var formaður allsherjarnefndar 2003-2007, sat í fjárlaganefnd 2003-2007, iðnaðarnefnd 2003-2004 og 2007, sérnefnd um stjórnarskrármál 2003-2006, 2007-2008, og 2009, heilbrigðis- og trygginganefnd 2004-2005, utanríkismálanefnd 2005-2013 (formaður 2007-2009), kjörbréfanefnd 2005-2009, efnahags- og skattanefnd 2007-2009 og starfshópi utanríkismálanefndar um Evrópumál 2009-2013. Þá sat Bjarni í Íslandsdeild VES-þingsins 2003-2005 (formaður), Íslandsdeild þingmannanefndar EFTA 2005-2009, Íslandsdeild Norðurlandaráðs 2009-2012 og þingmannanefnd Íslands og ESB 2010-2022 og 2012-2013. Bjarni var fjármála- og efnahagsráðherra 2013-2017 og 2017-2021, forsætisráðherra 2017 og utanríkisráðherra 2023-2024.

„Ég hef aldrei haft eins mikla reynslu eins og þegar ég kem hingað af því að sitja í rík­is­stjórn og eiga í sam­starfi við aðra flokka. Ég hef líka komið hingað áður þannig ég þekki margt af því fólki sem hér starfar, sem og húsið og hlut­verkið,“ sagði Bjarni m.a. í viðtali við Morgunblaðið.

Bjarni er kvæntur Þóru Margréti Baldvinsdóttur og eiga þau fjögur börn.

Annað ráðuneyti Bjarna Benediktssonar er skipað með eftirfarandi hætti:

 • Bjarni Benediktsson, forsætisráðherra
 • Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra
 • Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra
 • Svandís Svavarsdóttir, innviðaráðherra
 • Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra
 • Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, utanríkisráðherra
 • Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra
 • Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra
 • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra
 • Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra
 • Guðrún Hafsteinsdóttir, dómsmálaráðherra
 • Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, matvælaráðherra

Hér má sjá beina útsendingu frá blaðamannafundi ríkisstjórnarinnar.