Út fyrir boxið

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn í Reykja­vík kall­ar eft­ir kjarkaðri umræðu um lausn leik­skóla­vand­ans. Svo tryggja megi fjöl­skyldu­fólki úrræði í kjöl­far fæðing­ar­or­lofs þarf kerf­is­breyt­ingu. Það er kom­inn tími til að ræða þá hug­mynd af al­vöru að hefja grunn­skóla­göng­una við fimm ára ald­ur, og ljúka henni á fimmtánda ári, í stað þess sextánda.

Vax­andi vandi í Reykja­vík

Á und­anliðnum árum hef­ur leik­skóla­vand­inn farið vax­andi. Þrátt fyr­ir ít­rekuð lof­orð um leik­skóla­vist fyr­ir öll börn frá 12 mánaða aldri hef­ur meðal­ald­ur barna við inn­göngu á leik­skóla farið hækk­andi á kjör­tíma­bil­inu og var 21-22 mánuðir við síðustu ára­mót.

Mik­il sam­keppni er um fá­gæta leik­skóla­kenn­ara og virðist út­skrifaður fjöldi úr leik­skóla­kenn­ara­fræðum ekki sam­svara vax­andi fjölda barna á leik­skóla­aldri. Ein birt­ing­ar­mynd þessa mönn­un­ar­vanda er sú, að á síðustu árum hafa á bil­inu 200-400 leik­skóla­pláss verið vannýtt í Reykja­vík, ein­ung­is vegna mann­eklu.

Kennsla á for­send­um leik­skól­ans

Upp­haf grunn­skóla­göngu við fimm ára ald­ur hefði í för með sér marg­vís­lega kosti, en í fimm ára bekkj­um gæti kennsla farið fram á for­send­um leik­skól­ans. Skapa mætti aukna teng­ingu milli leik­skóla og grunn­skóla og hugsa mennt­un barna með heild­stæðum hætti allt frá unga aldri til loka grunn­skóla­göng­unn­ar. Það er löngu tíma­bært að upp­hefja leik­skóla­starfið enda sýn­ir fjöldi rann­sókna mik­il­vægi þess að leik­ur sé notaður sem kennsluaðferð fyr­ir ung börn.

Með því að hefja grunn­skóla­göng­una ári fyrr gæt­um við jafn­framt tryggt öll­um börn­um leik­skóla­pláss við tólf mánaða ald­ur. Mönn­un­ar­vand­inn væri nefni­lega leyst­ur, því ein­göngu þyrfti að manna fjór­tán ár­ganga í skóla­kerf­inu í stað fimmtán. Víða er­lend­is hefst grunn­skól­inn við fimm ára ald­ur og í flest­um sam­an­b­urðarlönd­um út­skrif­ast ung­menni úr fram­halds­skóla 18 ára. Breyt­ing­in gæti tryggt aukna sam­keppn­is­hæfni ís­lenskra ung­menna og verið gæfu­spor ef unn­in á fag­leg­um for­send­um.

Hliðrun grunn­skóla­göng­unn­ar myndi ekki ein­ung­is tryggja betri dreif­ingu mannauðs held­ur jafn­framt skapa fjár­hags­legt svig­rúm sem nem­ur allt að 4,4 millj­örðum ár­lega. Þá fjár­muni mætti nýta til að bæta kjör kenn­ara en jafn­framt tryggja bætt­ar starfsaðstæður og heil­næmt og nú­tíma­legt skóla­hús­næði fyr­ir börn. Það er til mik­ils að vinna og full ástæða til að hefja kenn­ara­starfið enn frem­ur til vegs og virðing­ar.

Til­rauna­verk­efni í borg­inni?

Skóla­kerfið er eitt mik­il­væg­asta jöfn­un­ar­tækið sem ís­lenskt sam­fé­lag býr yfir. Því er ætlað að tryggja börn­um þá grunn­færni sem reyn­ast mun nauðsyn­leg svo þau geti notið jafnra tæki­færa og orðið virk­ir þátt­tak­end­ur í okk­ar sam­fé­lagi. Hvers kyns kerf­is­breyt­ing­ar mega því und­ir eng­um kring­um­stæðum draga úr gæðum mennt­un­ar hér­lend­is.

Á borg­ar­stjórn­ar­fundi næsta þriðju­dag legg­ur Sjálf­stæðis­flokk­ur því til að Reykja­vík­ur­borg leiti sam­starfs við nokkra grunn­skóla í Reykja­vík um til­rauna­verk­efni með fimm ára bekki. Fyr­ir­komu­lagið gefi for­eldr­um kost á að sækja um að skóla­ganga barna þeirra hefj­ist við fimm ára ald­ur, og að henni ljúki á fimmtánda ald­ursári í stað þess sextánda. Vel verði fylgst með fram­gangi verk­efn­is­ins, ár­angri og áskor­un­um.

Við val á þátt­töku­skól­um verði tekið mið af biðlist­um leik­skóla og þeir skól­ar sett­ir í for­gang sem staðsett­ir eru inn­an hverfa þar sem leik­skóla­vand­inn er mest­ur. Með til­rauna­verk­efn­inu megi því kanna fag­leg­an fýsi­leika fimm ára bekkja, en sam­hliða rýma auk­inn fjölda leik­skóla­plássa og bregðast að hluta við biðlista­vanda leik­skól­anna.

Spjót­in bein­ast að sveit­ar­fé­lög­um

Krafa fjöl­skyldu­fólks um áreiðan­leg úrræði í kjöl­far fæðing­ar­or­lofs hef­ur orðið enn há­vær­ari und­anliðin ár. Rík­is­stjórn­in hef­ur stigið mik­il­væg skref með leng­ingu fæðing­ar­or­lofs og boðaðri hækk­un á þaki or­lofs­greiðslna. Spjót­in bein­ast nú að sveit­ar­fé­lög­un­um.

Það er vel mögu­legt að leysa neyðarástand í leik­skóla­mál­um borg­ar­inn­ar – en til þess þarf að hugsa út fyr­ir boxið. Sam­hliða end­ur­skoðun leik- og grunn­skóla­kerf­is­ins mætti skoða úrræði á borð við heim­greiðslur, dag­gæslu á vinnu­stöðum og öfl­ugra dag­for­eldra­kerfi. Fjöl­skyld­ur eru ólík­ar og þeim þarf að bjóða fjöl­breytt úrræði.

Sam­fé­lagið hef­ur hag af því að styðja vel við barna­fólk og búa vel að upp­vexti framtíðar­inn­ar. Ekki síst með hliðsjón af sí­lækk­andi fæðing­artíðni hér­lend­is. Stjórn­mála­menn þurfa að hafa hug­rekki til að end­ur­skoða op­in­ber kerfi sem þjóna ekki leng­ur fólki – og kjarkinn til að ræða breyt­ing­ar þegar breyt­inga er þörf.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. apríl 2024.