Kristinn Karl endurkjörinn formaður Verkalýðsráðs

Aðalfundur Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins var haldinn mánudaginn 25. mars. Var fundurinn í senn staðfundur og fjarfundur enda um landssamtök að ræða. Fundurinn var vel sóttur og voru líflegar umræður um bæði stjórnmálaviðhorfið og starfsemi ráðsins.

Í skýrslu stjórnar kom fram að margt hafði verið á döfinni á starfstíma fráfarandi stjórnar. Haldnir höfðu verið opnir fundir um vinnumarkaðsmál, auk hefðbundinna stjórnarfunda og reglulegra framkvæmdastjórnarfunda. Í fyrsta sinn var 1. maí vöfflukaffi Verkalýðsráðs haldið bæði í Valhöll og á Akureyri. Jafnframt var sú nýjung tekin upp á síðasta ári að halda viðburð hinn 1. desember. Þar var Magnús L. Sveinsson, fyrrverandi formaður VR og fyrrverandi forseti borgarstjórnar, heiðraður fyrir áratugalangt starf sitt í þágu launþegarhreyfingarnar á Íslandi. Verkalýðsráð tók þátt í undirbúningi landsfundar, kom að málefnavinnunni í aðdraganda fundar auk þess félagsmenn létu að sér kveða á fundinum sjálfum. Í skýrslu stjórnar kom fram að formaður ráðsins hefur á starfstíma stjórnarinnar skrifað tugi greina í blöð auk þess sem hann hefur verið virkur í þjóðfélagsumræðunni á samfélagsmiðlum. Formaður ráðsins hefur verið framsögumaður á fundum sjálfstæðismanna og nýtti sumarleyfi sitt á síðasta ári til að fara hringferð um landið og ræða við flokksmenn á völdum stöðum.

Á fundinum var Kristinn Karl Brynjarsson endurkjörinn formaður ráðsins auk þess sem Stefán Friðrik Stefánsson og Heiðrún Hauksdóttir voru endurkjörin varaformenn. Í stjórn voru kjörin Auður Björk Guðmundsdóttir, Eiður Ævarson, Engilbert Gíslason Túngata, Grazyna María Okuniewa, Guðrún Sigríður Jósefsdóttir, Gunnar Hnefill Örlygsson, Heiða B. Þórðardóttir, Heiðar Már Antonsson, Helga Guðrún Jónasdóttir, Hilmar Jökull Stefánsson, Jóel Þór Árnason, Jón Orri Guðjónsson, Ólöf Skaftadóttir, Rúnar Helgason, Ragnar Ásmundsson, Reynir Friðriksson, Sindri Már Smárason, Þorsteinn Gíslason, Þorvaldur Birgisson og Þórarinn Þórarinsson.