Nýja skipulagsstefnu vegna náttúruhamfara

Björn Gíslason, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Enn gera Reykja­neseld­ar vart við sig og minna um leið á þær óhuggu­legu staðreynd­ir að nú­ver­andi elds­um­brota­hrina geti hæg­lega varað næstu ára­tugi og að bú­ast megi við nátt­úru­vá á Reykja­nesskag­an­um jafn­vel næstu þrjár ald­irn­ar. Þess­ir óvissuþætt­ir krefjast þess að við skoðum byggðaþróun, sam­göngu­mál og þétt­býl­is­skipu­lag í Reykja­vík frá nýju sjón­ar­horni jarðsög­unn­ar og jarðvís­inda. Í þeim efn­um hafa sér­fræðing­ar verið sam­mála um að höfuðborg­in hljóti að þróa byggð sína inn með sund­um, í átt að Kjal­ar­nesi.

Reykja­vík­ur­flug­völl­ur og úr­elt aðal­skipu­lag

Það er svo ein­sýnt að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur verður af þess­um sök­um áfram í Vatns­mýr­inni næstu ára­tug­ina og ör­ygg­is­hlut­verk hans verður lík­lega veiga­meira en nokk­urn tíma fyrr.

Við þess­ar aðstæður er taf­ar­laus end­ur­skoðun á aðal­skipu­lagi Reykja­vík­ur­borg­ar bráðnauðsyn­leg. Nú­gild­andi aðal­skipu­lag er í raun meingallað með hliðjón af þeim for­send­um sem nátt­úru­öfl­in hafa nú kallað fram og taka verður mið af. Ein af meg­in­for­send­um þess er sú að Reykja­vík­ur­flug­völl­ur sé á för­um og fyr­ir­huguð er um­fangs­mik­il íbúðaupp­bygg­ing inni á flug­vall­ar­svæðinu, svæði sem völl­ur­inn má alls ekki verða af á þess­um óvissu­tím­um.

Ódýr­ari lóðir – ör­ari upp­bygg­ingu

Í þriðja lagi hróp­ar þetta óvissu­ástand á miklu meira og hag­stæðara lóðafram­boð í höfuðborg­inni og mun hraðari byggðarþróun þar en við höf­um átt að venj­ast und­an­far­in ár. Við þurf­um því að byggja á landi í eigu borg­ar­inn­ar aust­an Elliðaáa. Þar eru víðar lend­ur, í Grafar­vogi, Úlfarsár­dal, Gufu­nesi, Geld­inga­nesi, á Keld­um, Keldna­holti og Kjal­ar­nesi.

Draga þarf úr þétt­ingu vest­ast í borg­inni

Mjög mik­il byggðaþétt­ing á dýr­um lóðum vest­an Elliðaáa síðastliðinn ára­tug hef­ur hækkað mjög fast­eigna­verð. Þessi ein­hliða stefna hef­ur auk þess haft í för með sér eins­leitt hús­næði og stöðluð hverfi fjöl­býl­is­húsa fyr­ir af­markaða mark­hópa. Van­kant­ar þess­ar­ar ein­hæfu stefnu hafa orðið sí­fellt aug­ljós­ari í seinni tíð. En nýj­ar for­send­ur með hliðsjón af nátt­úru­ham­förum hafa gert ráðandi skipu­lags­stefnu gjaldþrota með öllu. Elds­um­brot­in á Reykja­nesi hafa t.d. aukið lík­ur á því að rýma þurfi fjöl­menna borg­ar­hluta. Af þeim sök­um væri óráðlegt að fjölga mikið meira íbúðum í vest­asta hluta borg­ar­inn­ar.

Skipu­lags­stefna mörkuð

Þess er vert að geta að ný­af­staðið Reykja­vík­urþing Varðar, full­trúaráðs sjálf­stæðis­fé­lag­anna í Reykja­vík, tók með af­drátt­ar­laus­um hætti á þess­um mál­um. Reykja­vík­urþingið tel­ur hvort tveggja, ný bygg­ing­ar­svæði og bætt sam­göngu­kerfi, bráðnauðsyn­leg við nú­ver­andi aðstæður. Aukið um­ferðarflæði stofn­brauta­kerf­is­ins og lagn­ing Sunda­braut­ar varða nú al­manna­varn­ir sem aldrei fyrr ef til fjölda­rým­inga þyrfti að koma á næstu ára­tug­um.

Íbúa­byggð í Geld­inga­nesi

Við sjálf­stæðis­menn lögðum fram til­lögu í borg­ar­stjórn síðastliðinn þriðju­dag um að borg­ar­stjórn samþykki að fela um­hverf­is- og skipu­lags­sviði að hefja vinnu við end­ur­skoðun á aðal­skipu­lagi Reykja­vík­ur með það að mark­miði að skipu­leggja blandaða byggð í Geld­inga­nesi með áherslu á íbúðaupp­bygg­ingu. Til­lög­unni var hafnað. Sú af­greiðsla lýs­ir ótrú­legu van­mati á þeim viðsjár­verðu tím­um sem nú fara í hönd og kæru­leysi gagn­vart ör­ygg­is­hags­mun­um al­menn­ings.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. mars 2024.