Geldinganes er gott byggingarland

Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Aðgerða er þörf til lausn­ar á þeim hús­næðis­vanda sem við er að glíma á höfuðborg­ar­svæðinu. Mik­il­vægt er að Reykja­vík­ur­borg stór­auki lóðafram­boð og standi þannig að sölu lóða að verð nýrra íbúða lækki veru­lega frá því sem nú er.

Sem bet­ur fer ræður borg­in yfir miklu land­rými sem hægt er að breyta í bygg­ing­ar­lóðir á skömm­um tíma. Á sama tíma og borg­in glím­ir við fjár­hagserfiðleika er land e.t.v. hið eina sem hún á nóg af.

Lóðaskorts­stefna og of­uráhersla á þétt­ingu hef­ur þrýst upp hús­næðis­verði í Reykja­vík og stuðlað að því að verðbólga og stýri­vext­ir hafa þró­ast á óhag­felld­an hátt fyr­ir al­menn­ing. Stór­aukið fram­boð lóða væri til þess fallið að svara mik­illi spurn eft­ir hús­næði, lækka hús­næðis­verð og draga úr verðbólgu.

Borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins hafa bent á ýms­ar leíðir til að auka lóðafram­boð í borg­inni. Svo mik­il upp­söfnuð þörf er fyr­ir bygg­ing­ar­land að ljóst er að taka þarf ný hverfi til upp­bygg­ing­ar sem fyrst. Smáskammta­lækn­ing­ar duga ekki leng­ur með tak­mörkuðu fram­boði dýrra íbúða á þétt­ing­ar­svæðum, sem venju­legt launa­fólk hef­ur ekki efni á.

Ákjós­an­leg upp­bygg­ing­ar­svæði

Líta þarf til upp­bygg­ing­ar í Úlfarsár­dal, Keldna­landi, Kjal­ar­nesi og Geld­inga­nesi að þessu leyti. Sums staðar er hægt að breyta landi í lóðir á skömm­um tíma. Ann­ars staðar þarf að huga að framtíðar­skipu­lagi enda ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Í byrj­un mars lögðum við borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins til að haf­ist yrði handa við skipu­lagn­ingu Halla- og Hamra­hlíðarlanda í Úlfarsár­dal en þar rúm­ast með góðu móti byggð fyr­ir 3-4 þúsund íbúa. Til­lög­unni var vel tekið í borg­ar­stjórn og vísað til átaks­hóps um hús­næðis­upp­bygg­ingu í borg­inni. Óvíst er þó hvort málið verði í for­gangi hjá nú­ver­andi meiri­hluta.

Framtíðarbyggð í Geld­inga­nesi

Í Geld­inga­nesi má með góðu móti koma fyr­ir 7-10 þúsund manna byggð auk at­vinnusvæðis.

Nesið er um 220 hekt­ar­ar að flat­ar­máli eða svipað og svæðið sem af­mark­ast af Hring­braut og Snorra­braut. Best væri að vinna sam­hliða að skipu­lagi Sunda­braut­ar og Geld­inga­ness enda er braut­in for­senda íbúðabyggðar þar.

Á fundi borg­ar­stjórn­ar sl. þriðju­dag lögðu borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins til að haf­ist yrði handa við skipu­lagn­ingu íbúðahverf­is í Geld­inga­nesi. Til­lag­an var felld með at­kvæðum meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar, Fram­sókn­ar­flokks, Pírata og Viðreisn­ar auk VG.

Í októ­ber 2022 lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn fram svipaða til­lögu um skipu­lags­vinnu vegna framtíðarbyggðar í Geld­inga­nesi en hún var einnig felld með at­kvæðum sömu flokka.

Borg­ar­full­trú­ar vinstri meiri­hlut­ans virðast þó hafa mis­mun­andi af­stöðu til framtíðarbyggðar í Geld­inga­nesi ef marka má umræður í borg­ar­stjórn. Marg­ir þeirra viður­kenna að svæðið sé lík­legt bygg­ing­ar­land til framtíðar en telja skipu­lags­vinnu ekki tíma­bæra. Sum­ir þeirra eru þó bein­lín­is and­víg­ir íbúðabyggð á Geld­inga­nesi og vilja helst nýta svæðið til grjót­náms og skóg­rækt­ar.

Þá hef­ur komið fram það sjón­ar­mið hjá full­trú­um meiri­hlut­ans að ekki megi byggja upp Geld­inga­nes á sama tíma og Keldna­land. Eitt af mark­miðum svo­nefnds sam­göngusátt­mála sé nefni­lega að fá gott verð fyr­ir Keldna­landið enda sé því ætlað að fjár­magna stór­an hluta sam­göngusátt­mál­ans. Af þess­ari ástæðu sé óæski­legt að byggja annað stórt út­hverfi sam­tím­is.

Hús­næðismál í víta­hring

Þetta viðhorf er lýs­andi fyr­ir hús­næðis­stefnu nú­ver­andi meiri­hluta. Lóðaskorti er viðhaldið til að sem best verð fá­ist fyr­ir bygg­ing­ar­lóðir í Keldna­landi, sem ætlað er að fjár­magna hluta sam­göngusátt­mál­ans. Lóðaverði er haldið uppi til að tryggja sem mest­an afrakst­ur hins op­in­bera við lóðasölu til al­menn­ings. Gott fram­boð lóða á hag­stæðu verði í öðrum hverf­um myndi lækka lóðaverð og ganga gegn áður­nefndri stefnu.

Slík lóðaskorts­stefna geng­ur í ber­högg við hags­muni allra sem hyggja á íbúðar­kaup, ekki síst ungs fólks sem vill fjár­festa í eig­in hús­næði en hef­ur lítið á milli hand­anna. Lóðaskort­ur stuðlar að háu lóðaverði, sem leiðir af sér hátt hús­næðis­verð. Hús­næðis­vand­inn verður ekki leyst­ur á meðan hús­næðismál í Reykja­vík eru föst í slík­um víta­hring vinstri flokk­anna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 21. mars 2024.