Byggð í Geldinganesi

Friðjón R. Friðjónsson, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Það skýrist alltaf bet­ur og bet­ur með hverri vik­unni sem líður að for­send­ur Reykja­vík­ur­borg­ar í aðal­skipu­lagi til 2040 og for­send­ur vaxt­ar­marka höfuðborg­ar­svæðis­ins eru fyr­ir bí. Eld­hrær­ing­ar á Reykja­nesskaga og mann­fjöldaþróun gera það að verk­um að við þurf­um að end­ur­skoða fyrri ákv­arðanir. Þess vegna leggj­um við borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins fram til­lögu í borg­ar­stjórn síðar í dag um að fela um­hverf­is- og skipu­lags­sviði að hefja vinnu við end­ur­skoðun á Aðal­skipu­lagi Reykja­vík­ur með það að mark­miði að skipu­leggja blandaða byggð í Geld­inga­nesi með áherslu á íbúðaupp­bygg­ingu.

Geld­inga­nesið er rúm­lega tveir fer­kíló­metr­ar að stærð sem er til jafns við Foss­vogs­hverfi og Smá­í­búðahverfið þar sem um 12 þúsund manns búa í mjög blandaðri byggð ein­býl­is­húsa, raðhúsa og fjöl­býl­is­húsa. Bæði gríðarlega góð og eft­ir­sótt hverfi að búa í. Það er fyr­ir­mynd okk­ar sjálf­stæðis­fólks. Vel heppnuð blönduð hverfi þar sem fjöl­breytni bú­setu­val­kosta er mik­il.

Þegar sá sem þetta skrif­ar var að al­ast upp í Foss­vogi á átt­unda og ní­unda ára­tug síðustu ald­ar var oft vinda­samt og kalt fyr­ir norðan hús á meðan veður­sæld­in var hvergi meiri fyr­ir sunn­an hús í skjól­inu. Það er ekk­ert því til fyr­ir­stöðu að í tím­ans rás verði suður­hlíð Geld­inga­ness viðlíka vin og Foss­vog­ur­inn er orðinn. Til þess þarf tíma og gróður.

Við vit­um að for­send­ur aðal­skipu­lags eru brostn­ar, við vit­um að fólki á höfuðborg­ar­svæðinu mun fjölga á næstu árum og ára­tug­um og við vit­um að hús­næðisþörf­in í Reykja­vík er gríðarleg. Það er al­veg ljóst að Vatns­mýr­in verður ekki byggð næstu 20 ár eða leng­ur. Stóru hús­næðis­verk­efn­in á Ártúns­höfða og Keldna­landi verða bæði þétt­býl hverfi þar sem fjöl­býl­is­hús verða alls­ráðandi. Það er fyr­ir löngu kom­inn tími á fjöl­breytni í upp­bygg­ingu í Reykja­vík. Þess vegna leggj­um við, borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins, fram til­lögu um upp­bygg­ingu á Geld­inga­nesi. Til að auka fjöl­breytni í fram­boði og til að mæta framtíðinni og breytt­um aðstæðum á suðvest­ur­horni lands­ins. Við borg­ar­full­trú­ar Sjálf­stæðis­flokks­ins erum fullmeðvituð um stefnu meiri­hlut­ans og til­hneig­ingu þeirra sem hann skipa til að stinga höfðinu í sand­inn þegar þeim lík­ar ekki veru­leik­inn. En þótt það sé lít­il von, þá verðum við að vona að nú­ver­andi meiri­hluti skynji um­hverfi sitt og breytt­ar aðstæður. En við leggj­um ekki síður fram til­lög­una um byggð í Geld­inga­nesi til að sýna borg­ar­bú­um að það er til kost­ur sem raun­veru­lega lof­ar breyt­ing­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. mars 2024.