Sjálfstæðisflokkur í meirihluta í Fjarðabyggð

Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur hafa myndað nýjan meirihluta í bæjarstjórn Fjarðabyggðar.

Í málefnasamningi nýs meirihluta kemur fram að horft verði til þess að efla samvinnu og samstarf þvert á byggðakjarna og styrkja fjárhagslega sjálfbærni þeirra svo Fjarðabyggð geti áfram dafnað. Í krafti sterkrar fjárhagsstöðu geti Fjarðabyggð horft björtum augum til framtíðar með ábyrgum og traustum rekstri.

Málefnasamningur nýs meirihluta sé metnaðarfullur og í takt við þau tækifæri til vaxtar sem Fjarðabyggð býr yfir og lýsi raunhæfum markmiðum að árangri fram að næstu sveitarstjórnarkosningum.

„Við byrjum strax á því að stíga fyrstu skrefin í að styrkja fjárhagslegra sjálfbærni sveitarfélagsins og fækkum nefndum og nefndarfólki í samræmi við stjórnskipulag sveitarfélagsins. Þetta er sterkur meirihluti sem hefur alla burði til að koma á festu svo að Fjarðabyggð geti áfram eflst og dafnað. Í sveitarfélaginu er atvinnulíf nú þegar öflugt en um leið tækifæri til frekari verðmætasköpunar,“ segir Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð.