Ríkisfyrirtæki á ekki að kaupa tryggingafélag

„Ríkisfyrirtæki á ekki að kaupa tryggingafélag. Ríkið á að losa um tugi milljarða og umbreyta þeim í samfélagslega innviði sem almenningur nýtur góðs af og byggir undir frekari verðmætasköpun og samkeppnishæfni allra landshluta,“ segir Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra á facebook-síðu sinni um þá fyrirætlan Landsbanka Íslands að kaupa TM. Þá segir hún að kröftum ríkisins sé betur borgið í öðrum fjárfestingum en tryggingastarfsemi sem enginn hafi kallað eftir að sé í ríkisrekstri.

Hún bendir á að í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sé kveðið á um að stjórnvöld muni halda áfram að draga úr eignarhaldi ríkisins í fjármálakerfinu og nýta fjármuni sem liggja í slíkum rekstri í uppbyggingu innviða.

„Eigendastefna ríkisins fyrir fjármálafyrirtæki er samhljóða og þar er meðal annars kveðið á um stuðla skuli að samkeppni í fjármálastarfsemi. Ég hef lagt mikla áherslu á að þessari stefnu sé fylgt eftir og á næstu dögum mæli ég fyrir um frumvarp um sölu eftirstandandi hlutar ríkisins í Íslandsbanka,“ segir hún og að þrátt fyrir allt þetta stefni Landsbankinn sem sé í tæplega 100% eigu ríkisins að stækkun með því að stíga með afgerandi hætti inn á nýjan markað með kaupum á stóru fyrirtæki á markaði (TM).

„Þessi viðskipti verða ekki að veruleika með mínu samþykki, nema söluferli Landsbankans hefjist samhliða. Ég hef óskað skýringa á málinu frá Bankasýslu ríkisins sem heldur um eignarhluti ríkisins í bankanum og setur almenn viðmið um áherslur í rekstri auk þess að fylgja eftir eigendastefnu ríkisins,“ segir hún.