Hægt verði að afturkalla dvalarleyfi þeirra sem brjóti af sér

„Við sem samfélag gerum að sjálfsögðu þá kröfu að þeir sem búa hér á landi fari eftir íslenskum lögum. Þá gildir einu hvort um sé að ræða Íslendinga eða aðra sem hingað hafa flust. Það er frumskylda stjórnvalda að tryggja öryggi borgaranna. Á hinum Norðurlöndunum má finna ákvæði sem heimilar afturköllun verndar þegar flóttamaður hefur gerst sekur um alvarlegan glæp og hann ógni þjóðaröryggi og allsherjarreglu í landinu,“ segir Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra sem hyggst leggja fram frumvarp til breytinga á lögum sem heimili afturköllun á dvalarleyfi fólks með alþjóðlega vernd sem brjóti af sér hér á landi.

Í viðtali við mbl.is segir Guðrún að nýlegt mál þar sem ráðist var á tvo starfsmenn verslunar á höfuðborgarsvæðinu sýni að breytingar séu nauðsynlegar, en núgildandi lög heimila ekki brottvísun þar sem skortir ákvæði um afturköllun á alþjóðlegri vernd líkt og finnst í lögum á öðrum Norðurlöndum.

„Sam­kvæmt gild­andi lög­um og meg­in­regl­um þjóðarrétt­ar þá meg­um við ekki senda fólk til baka sem hef­ur fengið vernd hérna á ís­landi ef lífi þess er ógnað í heimarík­inu,“ seg­ir ráðherra. Það sé einungis hægt ef aðstæður sem liggi að baki verndarinnar breytist (í heimaríki).

Horft verður til laga á Norðurlöndunum þar sem eru heimildir um afturköllun verndar ef flóttamaður hefur gerst sekur um alvarlegan glæp eða hann ógnar þjóðaröryggi í landinu.

„Ég er búin að vera mjög skýr í mín­um störf­um. Ég vil færa okk­ar lög­gjöf nær lög­gjöf Norður­land­anna og ef þau eru með þetta ákvæði tel ég al­gjör­lega til­efni til að skoða það bet­ur,“ segir Guðrún og ítrekar að Norðurlöndin, rétt eins og Ísland, séu bundin af meginreglum þjóðréttar sem sem þá trompi þetta ákvæði.

Hún segir einnig að sjálfsagt sé að samfélagið geri þá kröfu að þeir sem búi hér á landi eða dvelji hér fari að íslenskum lögum.

„Þá skipt­ir ekki máli hvort það séu ís­lend­ing­ar eða aðrir sem hingað koma. Það er frum­skylda mín sem ráðherra og frum­skylda þar með stjórn­valda að tryggja ör­yggi borg­ara í þessu landi,“ segir hún.

Hún hefur átt samtal við lögregluyfirvöld um málið og segir mikilvægt að horfa til þess hvernig tekið er á móti þem sem fái vernd hér og hvernig sé hægt að tryggja að þeir sem hingað komi aðlagist íslensku samfélagi og læri íslensku.