Áfram fyrstur kemur, fyrstur fær?

Diljá Mist Einarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar Alþingis:

Árið 2020 skrifaði ég grein í Fréttablaðið undir fyrirsögninni Fyrstur kemur, fyrstur fær. Umfjöllunarefnið var fjölgun umsókna og veitinga á alþjóðlegri vernd hér á landi. Ég benti á að gagnrýni á aðgerðaleysi varðandi hælisleitendakerfið væri áberandi. Kallað væri eftir nýrri stefnu í málaflokknum. Þegar greinin var skrifuð hafði ég til hliðsjónar árið 2019, þar sem 531 einstaklingur hlaut alþjóðlega vernd á Íslandi en 867 sóttu um. Til samanburðar nefndi ég að við hefðum samþykkt að taka á móti 85 kvótaflóttamönnum (flóttamenn sem koma til landsins í boði stjórnvalda) árið 2020.

Þegar þessi grein er skrifuð, árið 2024, er staðan gjörbreytt. Þannig fengu 1.135 einstaklingar alþjóðlega vernd á Íslandi árið 2022 af þeim 2.162 sem sóttu um. Umsækjendur frá Úkraínu eru ekki meðtaldir og er heildartalan því umtalsvert hærri. Að þessum árum liðnum þarf samanburðurinn ekki einu sinni að vera eftir höfðatölu, því fjöldi umsókna og veitinga er nánast orðinn sá sami á Íslandi og t.a.m. í Danmörku.

Langstærstur hluti þeirra fjármuna sem varið er til stuðnings flóttafólki á Íslandi fer í verndarkerfið. Því hefur lítið breyst varðandi þá meginreglu sem hér gildir um tækifæri til betra lífs sem varð kveikjan að eldri skrifum mínum, regluna fyrstur kemur, fyrstur fær. Af þessum hópi sem hingað kemur er mikill meirihluti karlmenn. Stærstur hluti ungir karlmenn.

Tilkynning ríkisstjórnarinnar um að hún hefði náð saman um aðgerðir í málefnum umsækjenda um alþjóðlega vernd, flóttafólks og innflytjenda – heildarsýn í útlendingamálum – var löngu tímabær. Ljóst er að kerfi okkar í þessum víðfeðma málaflokki eru úr sér gengin og heildarsýnin engin. Umræðan hefur hverfst um upphrópanir og gífuryrði og skautun farið vaxandi. Það er því bæði ábyrgt og skynsamlegt að tilraun verði gerð til að taka utan um málaflokkinn með heildstæðum hætti. Við höfum fjölmörg nærtæk dæmi frá öðrum löndum þar sem stjórnvöld hafa veigrað sér við því og eru þau ekki til eftirbreytni.

Þegar þetta er skrifað eru yfir 110 milljón manns á flótta í heiminum. Yfir 800 milljón manns eru hungraðir og allt að þrefalt fleiri eru vannærðir. Staðan er langverst í Afríku. Eftir heimsfaraldur, styrjaldir og náttúruvá á nýliðnum árum hafa þessar tölur hækkað og horfir síst til betri vegar. Á sama tíma heyrum við að dregið hafi úr þróunarsamvinnu, m.a. í Afríku, vegna breyttrar forgangsröðunar og dreifðrar athygli heimsbyggðarinnar. Vinir okkar Finnar hafa t.d. tilkynnt um stórminnkuð framlög til þróunarsamvinnu.

Ísland er ríkt land í alþjóðlegum samanburði og vel í stakk búið til þess að láta gott af sér leiða. Við núverandi aðstæður sem fara sífellt versnandi er mikilvægt að aðstoð okkar beinist þangað sem hennar er þörf og þangað sem hún gerir mest gagn. Í því samhengi má nefna að þróunarsamvinna Íslands í Malaví kostaði 1,2 milljarða á síðasta ári. Malaví er eitt fátækasta ríki heims og hundruð þúsunda Malavíbúa nota þjónustu sem Ísland styrkir á hverju einasta ári. Við þann fjölda bætast tugir þúsunda Malavíbúa á ári hverju vegna þróunarsamvinnu Íslands.

Ég tel að það ríki enn þá almenn sátt á Íslandi um að við eigum að uppfylla skyldur okkar sem ábyrg þjóð í samfélagi þjóðanna og taka vel á móti fólki á flótta undan raunverulegum ógnum þótt fámennið setji okkur skorður. Þar hljótum við að gera kröfu um gagnsætt og sanngjarnt kerfi og að aðstoð beinist þangað sem hennar er þörf. Og á meðan staða fólks í heiminum heldur áfram að versna hlýtur ákallið að verða hærra um hjálp þeim til handa sem komast ekki alla leið hingað á hjara veraldar, ekki síst konum og börnum í verst settu ríkjum heims. Að meginreglan hér verði ekki fyrstur kemur, fyrstur fær, eins og verið hefur, heldur að fjármunir séu veittir þangað sem neyðin er mest.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu 4. mars 2024