Á jaðri skólasamfélagsins

Bryndís Haraldsdóttir alþingismaður:

Í takt við öra þróun í ís­lensku sam­fé­lagi á und­an­förn­um árum hef­ur inn­flytj­end­um fjölgað hratt. Í ljósi þeirr­ar þró­un­ar er mik­il­vægt að líta til þess hvernig okk­ur hef­ur gengið að þróa okk­ar góða sam­fé­lag þannig að fjöl­menn­ing fái að blómstra en einnig þannig að gildi okk­ar og hefðir glat­ist ekki.

Á síðustu fimm árum hef­ur er­lend­um rík­is­borg­ur­um fjölgað um hátt í 30.000, þar af eru um 5.000 börn.

Það er og hef­ur verið kost­ur ís­lensks sam­fé­lags hversu sveigj­an­leg­ur ís­lensk­ur vinnu­markaður er. Þannig hef­ur fólks sóst eft­ir að flytja hingað til þess að vinna þegar um­svif­in eru mik­il en jafn­an farið annað eða aft­ur til síns heima þegar um­svif­in minnka. Þetta er mik­il­væg­ur og góður kost­ur fyr­ir lítið vel­meg­un­ar­sam­fé­lag eins og Ísland er.

En sí­fellt fleiri sækj­ast eft­ir því að koma ekki aðeins hingað til að vinna í stutta stund held­ur vilja setj­ast að í okk­ar góða sam­fé­lagi. Þegar við tök­um á móti fólki sem hingað flyt­ur með fjöl­skyldu sína til lengri tíma er gríðarlega mik­il­vægt að fólk upp­lifi sig þannig að það til­heyri sam­fé­lag­inu.

Mik­il­vægt er að börn­um inn­flytj­enda, sem ganga í ís­lenska skóla, vegni vel og hafi sömu tæki­færi til að blómstra og þau börn sem hér fæðast. En hvernig líður þess­um hópi barna í ís­lenska skóla­kerf­inu?

Líðan barna í ís­lensk­um skól­um

Niður­stöður PISA-könn­un­ar árs­ins 2022 sem birt­ar voru í des­em­ber síðastliðnum voru okk­ur enn og aft­ur von­brigði eins og ég hef áður fjallað um. Þó er það já­kvætt að sam­kvæmt könn­un­inni líður börn­un­um okk­ar al­mennt vel í skól­an­um, þau telja sig til­heyra skóla­sam­fé­lag­inu, eru já­kvæð gagn­vart kenn­ur­um sín­um og upp­lifa síður einelti en börn í hinum ríkj­um Norður­land­anna. Þetta er auðvitað mjög já­kvætt og ætti að vera góður grunn­ur til að byggja á betri náms­ár­ang­ur.

Þegar þess­ir þætt­ir eru skoðaðir eft­ir upp­runa skóla­barna eru niður­stöðurn­ar slá­andi.

Börn af er­lend­um upp­runa í ís­lenska skóla­kerf­inu upp­lifa síður að þau til­heyri sam­fé­lag­inu en önn­ur börn. Það kann að vera eðli­legt að það taki tíma að aðlag­ast nýrri menn­ingu, en þegar niður­stöðurn­ar eru born­ar sam­an við önn­ur OECD-lönd eða aðrar Norður­landaþjóðir er mun­ur­inn mik­ill. Þannig telja inn­flytj­end­ur (bæði af 1. og 2 kyn­slóð) í ís­lensk­um skól­um sig miklu síður til­heyra í skól­an­um sín­um en inn­flytj­end­ur í hinum ríkj­um Norður­land­anna.

Norðmenn skara fram úr hvað þetta varðar og er þar mun­ur­inn minnst­ur á milli barna eft­ir upp­runa. Það er nauðsyn­legt að öll börn á Íslandi upp­lifi að þau til­heyri sam­fé­lag­inu, geti myndað fé­lags­leg tengsl við aðra og að þeim sé fagnað eins og þau eru. Al­mennt hef­ur fólk og sér­stak­lega ung­ling­ar sterka þörf fyr­ir að til­heyra. Nem­end­ur sem upp­lifa að þeir til­heyri í skól­an­um eru al­mennt áhuga­sam­ari um að læra og geng­ur bet­ur í nám­inu.

Þess­ar niður­stöður PISA kalla á mark­viss­ar aðgerðir er lúta að því hvernig við tök­um á móti er­lend­um börn­um í skóla­kerfið okk­ar. Grunn­skóla­kenn­ar­ar á Íslandi geta ekki bætt við sig enda­laus­um verk­efn­um, enda er þetta svo sann­ar­lega ekki eina brýna viðfangs­efnið í skól­un­um okk­ar því að á sama tíma verðum við að bæta náms­ár­ang­ur allra barna. Það sýn­ir PISA svart á hvítu, öll börn eiga að geta lesið sér til gagns eft­ir 10 ára grunn­skóla­nám. Grunn­ur­inn að því, rétt eins og öllu öðru námi, er færni í ís­lensku sem við sjá­um að er veru­lega ábóta­vant. Án ís­lenskukunn­áttu eru tæki­færi barna af er­lend­um upp­runa sér­stak­lega mjög tak­mörkuð hér á landi.

Við þurf­um að hafa burði til þess að sinna börn­um af er­lend­um upp­runa í ís­lensk­um skól­um, tak­ast á við það risa­stóra verk­efni sem fyr­ir er og hjálpa börn­un­um að finn­ast þau til­heyra sam­fé­lag­inu. Í því sam­hengi verðum við að hlusta á ákall skól­anna og bregðast við, öll­um til heilla.

Á sama tíma má ljóst vera að við get­um ekki tekið á móti jafn mikl­um fjölda á næstu árum og við höf­um gert á síðustu árum.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 4. mars 2024.