Fótalausir hermenn þakka Íslendingum

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Þann 24. fe­brú­ar sl. voru tvö ár liðin frá alls­herj­ar­inn­rás Rúss­lands í Úkraínu. Af því til­efni ferðuðumst við for­menn ut­an­rík­is­mála­nefnda í Evr­ópu og Kan­ada til Úkraínu. Til­gang­ur ferðar­inn­ar var að sýna sam­stöðu með full­valda lýðræðisþjóð sem berst af öll­um mætti gegn ólög­mætri inn­rás rík­is sem ber enga virðingu fyr­ir alþjóðalög­um.

Úkraínu­menn voru dug­leg­ir að minna okk­ur gest­ina á að þeir hefðu verið tíu ár í stríði, enda hefði Rúss­land ráðist inn í og her­numið land í Úkraínu árið 2014. Við funduðum með þing­mönn­um, emb­ætt­is­mönn­um og ráðherr­um og tók­um þátt í til­finn­ingaþrung­inni at­höfn í úkraínska þing­inu vegna tíma­mót­anna. Þar var ekki annað hægt en að tár­ast með úkraínsk­um koll­eg­um. Um kvöldið sofnuðum við út frá há­vær­um til­kynn­ing­um um loft­árás­ir í ná­grenni Kænug­arðs. Það er skringi­leg til­finn­ing fyr­ir íbúa friðsæl­asta lands heims.

Við hitt­um sam­tök sem berj­ast fyr­ir vernd og end­ur­heimt úkraínskra barna sem hafa verið num­in á brott af Rúss­um og þeim komið fyr­ir í Rússlandi. Yfir 20 þúsund slík til­felli eru skráð, en börn­in eru fal­in og heilaþveg­in í því skyni að reyna að afmá úkraínsk­an upp­runa þeirra. Slík­ar aðferðir eru vel þekkt­ar frá tím­um Sov­ét­ríkj­anna – Rúss­ar hafa engu gleymt við myrkra­verk­in.

Við heim­sótt­um sömu­leiðis end­ur­hæf­ing­armiðstöð fyr­ir úkraínska her­menn. Heim­sókn­in hafði djúp­stæð áhrif á hóp­inn, en við heilsuðum upp á her­menn sem voru al­var­lega brennd­ir, vits­muna­skert­ir vegna höfuðáverka og sem höfðu misst ýmsa út­limi. Þeir voru komn­ir mis­langt í bata­ferl­inu og ein­hverj­ir báðust und­an sam­tali og voru aug­ljós­lega í áfalli. Aðrir höfðu end­ur­heimt styrk og bar­áttuþrek og göntuðust við hóp­inn. Úkraínsk­ur andi er sann­ar­lega ein­stakt fyr­ir­brigði. Á aðal­torgi Kænug­arðs, Mai­dan, hafa ætt­ingj­ar fall­inna her­manna komið fyr­ir þúsund­um fána og mynda í minn­ingu þeirra. Selenskí for­seti Úkraínu hef­ur upp­lýst að 31 þúsund úkraínsk­ir her­menn hafi lát­ist við að verja landið á und­an­förn­um tveim­ur árum. Marg­falt fleiri hafa særst.

Hvað skyldu síðan Úkraínu­menn hafa sagt við þing­manna­hóp­inn, all­ir sem einn? Þing­menn, emb­ætt­is­menn og ráðherr­ar. Fólk sem hef­ur bjargað hundruðum úkraínskra barna úr klóm Rússa. Her­menn sem hafa misst báða fæt­ur, hönd, fing­ur. Sem hafa kval­ist, brunnið og kalið. Úkraínu­menn sem hafa misst nána fjöl­skyldumeðlimi, vini sína og heim­ili. Skila­boð þeirra allra til okk­ar voru: Takk! Takk fyr­ir að styðja við og gef­ast ekki upp á bar­áttu lýðræðis­rík­is fyr­ir grunnstoðum þess. Fyr­ir rétt­in­um til að velja og haga sín­um eig­in ör­lög­um. Við vor­um grát­beðin um að halda stuðningn­um áfram svo Úkraínu­menn gætu var­ist þess­um sam­eig­in­lega ógn­valdi við heims­mynd okk­ar.

Þegar hóp­ur­inn fór frá Úkraínu bár­ust okk­ur myndskila­boð frá her­manni í fram­lín­unni. Auðvitað með þökk­um fyr­ir veitt­an stuðning. Og hvatn­ingu til að halda hon­um áfram svo Úkraína geti áfram bar­ist fyr­ir okk­ar gild­um. Svo okk­ar börn þurfi ekki að deyja í bar­átt­unni fyr­ir áfram­hald­andi frjáls­um heimi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 29. febrúar 2024.