Traustur bandamaður

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra:

Í dag eru tvö ár liðin frá upp­hafi alls­herj­ar inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu. Hún sýndi svo ekki varð um villst að nú dygðu eng­in vett­linga­tök til að mæta útþenslu­stefnu Rússa, sem þeir höfðu fylgt allt frá inn­rás­inni í Georgíu 2008 og inn­limun Krímskaga 2014.

Í gær voru drög að til­lögu um lang­tímastuðning Íslands við Úkraínu samþykkt í rík­is­stjórn. Það eru tíma­mót sem sýna svo ekki verður um villst að okk­ur er al­vara með að styðja bar­áttu úkraínsku þjóðar­inn­ar eins lengi og þarf. Við höf­um staðið með Úkraínu allt frá upp­hafi með efna­hags­leg­um jafnt sem póli­tísk­um stuðningi og tekið vel á móti úkraínsku flótta­fólki, sem hef­ur auðgað ís­lenskt sam­fé­lag. Stuðning­ur Íslands und­an­far­in tvö ár nem­ur tæp­lega sex millj­örðum króna, auk kostnaðar við mót­töku flótta­fólks.

Það hef­ur reynst okk­ur styrk­ur í þessu verk­efni að geta tekið ákv­arðanir hratt og
ör­ugg­lega og náð sam­an þvert á póli­tísk­ar lín­ur þegar á reyn­ir. Nefna má birgðaflutn­inga og kaup á olíu­flutn­inga­bíl­um, að auki
við fær­an­legt neyðar­sjúkra­hús sem Íslend­ing­ar af­hentu Úkraínu um mitt ár í fyrra.
Sjúkra­húsið, sem var tekið í notk­un und­ir
lok síðasta árs, var gefið með sam­eig­in-
legri yf­ir­lýs­ingu allra flokka á Alþingi.

Atlants­hafs­banda­lagið stækk­ar og styrk­ist

Þvert á vænt­ing­ar Rússa reynd­ist Úkraína síður en svo auðveld bráð. Úkraína hef­ur var­ist hetju­lega, unnið aft­ur helm­ing þess landsvæðis sem tapaðist í upp­hafi og sökkt fjölda skipa Svarta­hafs­flota Rúss­lands. Hafi ætl­un Rússa verið að veikja Atlants­hafs­banda­lagið og valda sundr­ungu meðal aðild­ar­ríkja má segja að inn­rás­in hafi verið ein alls­herj­ar sneypu­för.

Aðild­ar­ríkj­um hef­ur fjölgað og fram­lög til varn­ar­mála ríkj­anna stór­auk­ist, en þau standa þétt við bakið á Úkraínu og munu gera það áfram. Það voru sögu­leg tíma­mót þegar vinaþjóðir okk­ar Finn­ar og Sví­ar sótt­ust eft­ir aðild vegna þess­ar­ar þró­un­ar eft­ir að hafa verið af­huga því alla tíð. Finn­ar eru þegar orðnir full­gild­ir aðilar og senn verður Svíþjóð kom­in í hóp­inn.

Þessi samstaða skipt­ir sköp­um enda er Rúss­land, hvað sem öðru líður, öfl­ugt her­veldi. Við víg­lín­una geis­ar grimmi­legt stríð og virðist ákveðin pattstaða ein­kenna ástandið. Rúss­land hef­ur um­turnað hag­kerfi sínu í þjón­ustu við hernað Pútíns í Úkraínu og vopna­fram­leiðsla hef­ur verið stór­auk­in.

Við eig­um mikið und­ir

Geta Rúss­lands til að bæta við liðsafla sinn og búnað með bein­um stuðningi Írans og Norður-Kór­eu, og óbein­um stuðningi annarra ríkja, er slík að án kraft­mik­ils stuðnings banda­manna eru eng­ar lík­ur á að Úkraína geti var­ist. Mikið ligg­ur því við að Vest­ur­lönd sýni stuðning sinn í verki sem aldrei fyrr.

Inn­rás­ar­stríðið er al­var­leg­asta ör­ygg­is­ógn sem steðjað hef­ur að Evr­ópu frá lok­um síðari heims­styrj­ald­ar og skýr at­laga að alþjóðakerf­inu sem bygg­ist á virðingu fyr­ir alþjóðalög­um, friðhelgi landa­mæra og land­helgi ríkja. Vina- og banda­lagsþjóðir okk­ar hafa því ekki aðeins stór­aukið út­gjöld sín til varn­ar­mála, held­ur sam­hliða mótað og kynnt metnaðarfull­ar lang­tíma­áætlan­ir um stuðning við Úkraínu. Áfram­hald­andi ís­lensk­ur stuðning­ur við ör­yggi og sjálf­stæði Úkraínu trygg­ir varðstöðu um beina ör­ygg­is­hags­muni Íslands og þær stoðir sem full­veldi okk­ar bygg­ist á.

Skila­boðin eru skýr

Á Alþingi hef­ur ríkt ein­hug­ur um að standa með Úkraínu og sú skoðun á sér sam­hljóm hjá mikl­um meiri­hluta þjóðar­inn­ar. Við erum framúrsk­ar­andi ríki á heimsvísu í öll­um sam­an­b­urði, á rödd okk­ar er hlustað á alþjóðavett­vangi og við höf­um getu jafnt sem burði til að styðja Úkraínu af sama krafti og nor­ræn­ir ná­grann­ar okk­ar.

Öflug tví­hliða sam­skipti við Úkraínu, sterk mála­fylgja á alþjóðavett­vangi og þátt­taka í sam­stöðuaðgerðum gagn­vart Rússlandi og Bela­rús verður áfram lyk­ilþátt­ur í póli­tísk­um stuðningi við bar­átt­una. Við ætl­um sömu­leiðis áfram að hreyfa okk­ur hratt í krafti smæðar­inn­ar hvar sem tæki­færi gefst.

Lang­tíma­stefn­an er hins veg­ar grund­vall­ar­atriði í að geta horft til lengri tíma í allri áætlana­gerð, ekki síst þegar kem­ur að fjár­mögn­un. Þannig fest­um við meg­in­at­riðin kyrfi­lega í sessi, bæði gagn­vart okk­ur sjálf­um og út á við.

Skila­boðin eru skýr; Ísland er og verður áfram traust­ur bandamaður.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.