Endurtekin óvirðing

Birgir Þórarinsson alþingismaður:

Íslendingar hafa sannarlega samúð með þolendum þeirra hörmunga sem dunið hafa yfir saklausa borgara fyrir botni Miðjarðarhafs. Hörmungar Palestínufólks hafa leiðtogar Hamas, sem búa í vellystingum í Katar, kallað yfir sína eigin þjóð. Nauðsynlegt er að fórna lífi Palestínumanna til að sigra Ísrael, sagði Hamas-leiðtoginn og milljarðamæringurinn Khaled Mashal í sjónvarpsviðtali skömmu eftir hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael 7. október sl. Hann færir að sjálfsögðu engar fórnir.

Ísland hefur stutt við Palestínu og palestínska flóttamenn með margvíslegum hætti um árabil. Ísland var fyrst vestrænna ríkja til að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki í desember 2011. Aðstoð Íslands til Palestínu frá þessum tíma nemur um tveimur milljörðum króna, sem er hlutfallslega hátt miðað við önnur ríki. Ísland tók á síðasta ári á móti fleiri Palestínumönnum en öll norrænu ríkin til samans. Fjölskyldusameiningar flóttamanna eru að sama skapi mun greiðari hér en í öðrum ríkjum. Útlendingastofnun hefur veitt flýtimeðferð um veitingu dvalarleyfa á Íslandi fyrir fjölskyldusameiningar frá Gasa. Stjórnvöld vinna að því að aðstoða viðkomandi leyfishafa við að koma til Íslands. Þegar til Íslands er komið fá þeir sömu réttindi og Íslendingar í velferðarkerfinu.

Áralangur stuðningur Íslands við Palestínu

Hvaða augum er svo þessi áralangi góði stuðningur Íslands við Palestínu litinn af Palestínumönnum sem búa á Íslandi og hafa verið að mótmæla, ásamt öðrum háværum hópi fólks á Austurvelli? Ráðherrar og þingmenn hafa á undanförnum vikum fengið senda fjölmarga tölvupósta á degi hverjum frá mótmælendum. Í þeim er sagt að stjórnvöld hafi gert alla Íslendinga samseka um stríðsglæpi í Palestínu. Ísland er sagt styðja þjóðarmorð og þjóðernishreinsanir á Palestínumönnum. Ráðherrar eru sagði barnamorðingjar með blóð á höndum sér. Allt hljómar þetta eins og Ísland sé í hernaði gegn Palestínumönnum á Gasa.

Ríkisstjórnin fundaði í Ráðherrabústaðnum með bæjaryfirvöldum í Grindavík vegna náttúruhamfaranna. Mótmælendur söfnuðust saman fyrir utan og hrópuðu ókvæðisorð að ríkisstjórn og ráðherrum vegna Palestínu. Lítið fór fyrir samúð í garð Grindvíkinga sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín og eru flóttamenn í eigin landi. Á Austurvelli reistu mótmælendur tjaldbúð með leyfi Samfylkingar, Framsóknar, Viðreisnar og Pírata í borgarstjórn. Rafmagn var sótt heimildarlaust til skattgreiðenda Reykjavíkur svo halda mætti hita á mannskapnum. Vörubretti og gaskútar lágu eins og hráviði. Íslenski fáninn lá á götunni.

Ofbeldi mótmælenda

Óheimilt er að tjalda á Austurvelli en borgin gaf lögreglusamþykkt Reykjavíkur langt nef. Fánar Palestínu voru festir á alla stokka og staura. Styttunni af Jóni Sigurðssyni var sýnd óvirðing með því að hengja á hana mótmælaspjöld og prílað var upp á stall hennar og palestínska fánanum flaggað.

Alþingi veitti ungri stúlku frá Palestínu ríkisborgararétt fyrir jólin. Stúlkan hafði misst fjölskyldu sína í stríðinu á Gasa og slasast alvarlega. Eftir komuna til Íslands mætti stúlkan á Austurvöll og var í hópi mótmælenda sem mótmæltu íslenskum stjórnvöldum.

Þegar tjaldbúðin var loks fjarlægð leið ekki á löngu þar til mótmælandi réðst að þingkonu Sjálfstæðisflokksins fyrir utan Alþingishúsið, skemmdi bifreið hennar og hreytti í hana ókvæðisorðum.

Nú hafa mótmælendur snúið sér að Stjórnarráðshúsinu og Kristjáni níunda, sem færði þjóðinni frelsisskrá okkar 1874. Hangið er á styttu konungs og palestínska fánanum veifað. Í flestum ríkjum værum menn handteknir fyrir þess konar háttsemi. Íslendingar hafa ekki átt að venjast annarri eins óvirðingu erlendra aðila gagnvart minningu látinna forystumanna okkar og hér hefur verið lýst. Seint verður sagt að þessi vanvirðandi háttsemi sé málstað Palestínumanna til framdráttar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. febrúar 2024.