Fengu leiðsögn um Hellana við Hellu

Hellarnir á Ægissíðu við Hellu voru viðkomustaður hluta þingflokksins ásamt starfsliði fyrir hádegi í dag. Dr. Baldur Þórhallsson prófessor og einn af eigendum fyrirtækisins tók á móti Bjarna Benediktssyni formanni Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, Bryndísi Haraldsdóttur alþingismanni, Sigurbirni Ingimundarsyni aðstoðarframkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins, Hersi Aroni Ólafssyni aðstoðarmanni utanríkisráðherra og Ingvari P. Guðbjörnssyni oddvita Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra.

Kynnti Baldur fyrir gestum sögu hellanna og ýmsar tilgátur tengdar henni. M.a. má leiða að því líkur að hellarnir séu frá því fyrir landnám norrænna manna þó ekki hafi tekist að sanna það að fullu enn. Fjölmargt bendir þó til þess að svo sé, m.a. sú staðreynd að norrænir menn grófu híbýli sín ekki í móberg og höfðu ekki til þess þekkingu á þessum tíma. Það höfðu þó Írar. Finna má ýmsar tengingar við Írland (Kelta), m.a. ummerki um kristni, en norrænir landnemar voru heiðnir.

Tólf manngerðir hellar hafa fundist í landi Ægissíðu og fjórir þeirra hafa nú verið opnaðir. Hellarnir eru friðlýstir og sýndir undir leiðsögn. Fjölskyldan á Ægissíðu vinnur að því að byggja upp og varðveita umhverfi og sögu hellanna í samvinnu við nærsamfélagið og Minjastofnun Íslands.

Í hellunum má t.d. finna stórmerka krossa, gamlar veggjaristur, myndir, syllur og fleira áhugavert. Öldum saman hefur fólk velt fyrir sér hvort hellarnir séu gerðir af pöpum og hve gamlir þeir séu. Þeir eru jafnframt elstu uppistandandi mannvirki á Íslandi. Einn hellanna er notaður enn þann dag í dag sem geymsla fyrir matvæli en í þeim helst alltaf jafnt hitastig allt árið. Annar var notaður sem hlaða til ársins 1975. Í gegnum aldirnar hafa þeir verið notaðir fyrir húsdýr, sem hlöður og matvælageymslur.