Torgin í miðborg Reykjavíkur

Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Nú­ver­andi odd­viti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í borg­ar­stjórn var borg­ar­stjóri sam­fleytt frá vor­inu 2014 til byrj­un­ar þessa árs. Á þessu tíma­bili ruku lang­tíma­skuld­ir A-hluta Reykja­vík­ur­borg­ar upp en í árs­lok 2014 námu slík­ar skuld­ir, sem hlut­fall af eig­in fé, 43,1%, en 30. sept­em­ber 2023 var sama hlut­fall 148,9%.

Þess­ar töl­ur veita vís­bend­ing­ar um langvar­andi óráðsíðu í rekstri Reykja­vík­ur­borg­ar. Úr mörg­um dæm­um er að velja til að varpa ljósi á þá óreiðu. Hér verður staldrað við ný­lega upp­bygg­ingu á torg­um í miðborg Reykja­vík­ur.

Sam­hengi fjár­fest­inga í miðborg­ar­torg­um

Það kom fram í skýrslu um Bragga­málið frá des­em­ber 2018, sem sam­in var af innri end­ur­skoðun Reykja­vík­ur­borg­ar, að fjár­fest­ing­ar Reykja­vík­ur­borg­ar hefðu auk­ist veru­lega frá ár­inu 2015 til árs­loka 2018 (sjá Naut­hóls­veg­ur 100, bls. 21). Þessi þróun hef­ur haldið áfram til dags­ins í dag, eins og ráða má af reglu­bundn­um skýrsl­um borg­ar­inn­ar um verk­stöðu ný­fram­kvæmda.

Þegar sveit­ar­fé­lag ræðst í að breyta torgi eða byggja nýtt, þá ligg­ur fyr­ir frá upp­hafi að slíkt útheimt­ir veru­leg út­gjöld á sama tíma og fjár­fest­ing­in muni skila litl­um sem eng­um tekj­um. Upp­bygg­ing torga í miðborg Reykja­vík­ur er sem sagt fegr­un­araðgerð á borg­ar­land­inu sem skil­ar borg­ar­sjóði ekki bein­um tekj­um.

Líta verður einnig til þess að hefðbundið er, þegar farið er í torg­fram­kvæmd­ir af þessu tagi, að sam­hliða þurfi að end­ur­nýja lagn­ir. Sá kostnaður er fal­inn í bók­haldi A-hluta borg­ar­sjóðs þar eð hann lend­ir á Veit­um ohf., sem er að lang­mestu leyti í eigu Reykja­vík­ur­borg­ar.

En hver er kostnaður­inn af upp­bygg­ingu torga í miðborg Reykja­vík­ur? Skoðum málið nán­ar.

Þing­holt Torg­in þrjú

Farið var af stað með verk­efnið „Þing­holt Torg­in þrjú“ (ver­k­núm­er 30510) árið 2017. Eitt þess­ara torga var Óðin­s­torg. Um þá til­teknu fram­kvæmd spratt ágrein­ing­ur á kjör­tíma­bil­inu 2018-2022, meðal ann­ars gagn­rýndi þáver­andi borg­ar­full­trúi Miðflokks­ins kostnaðinn af fram­kvæmd­inni.

Aðal­atriðið hér er að heild­ar­kostnaður reyk­vískra skatt­greiðenda vegna fram­kvæmd­anna við torg­in þrjú í Þing­holt­un­um, á verðlagi hvers tíma, varð 657 millj­ón­ir króna. Eru þá meðtal­in út­gjöld Veitna ohf.

Torgið á mót­um Póst­hús­stræt­is og Tryggvagötu

Árið 2017 var haf­ist handa við að und­ir­búa torg á mót­um Póst­hús­stræt­is og Tryggvagötu (ver­k­núm­er 30526). Mælt á verðlagi hvers tíma kostaði sú fram­kvæmd A-hluta borg­ar­sjóðs 689 millj­ón­ir króna. Ekki ligg­ur fyr­ir hver hafi verið út­gjöld Veitna ohf. vegna þess­ar­ar fram­kvæmd­ar.

Þetta torg komst í þjóðfé­lagsum­ræðuna fyr­ir skömmu vegna þess að Tóm­as A. Tóm­as­son alþing­ismaður lýsti þeirri skoðun sinni á sam­fé­lags­miðlin­um X að torgið væri illa lukkað og betra hefði verið að halda í bíla­stæðin við Toll­húsið við Tryggvagötu.

Hlemm­ur torg

Árið 2017 hófst vinna við að und­ir­búa fram­kvæmd­ir á Hlemm­ur torg (ver­k­núm­er 30522). Fram­kvæmd­ir við það verk­efni standa enn yfir. Fram til árs­loka 2022 nam kostnaður­inn við þetta verk­efni, mælt á verðlagi hvers tíma, 266 millj­ón­um króna. Fyr­ir árið 2023 var áætlað að út­gjöld vegna þessa næmu 600 millj­ón­um króna og svo aft­ur 600 millj­ón­um króna í ár. Kostnaður skatt­greiðenda af þessu verk­efni í lok þessa árs verður því vænt­an­lega kom­inn upp í tæp­ar 1.500 millj­ón­ir króna. Þessi tala miðast við verðlag hvers árs og er því ekki nú­virt, eins og rétt­ast væri að gera.

Ekki ligg­ur fyr­ir hvaða kostnað Veit­ur ohf. hafa borið vegna þess­ar­ar fram­kvæmd­ar.

Kostnaðar­söm gælu­verk­efni

Þau torg sem hér hafa verið nefnd eru ekki tæm­andi upp­taln­ing á þeim fram­kvæmd­um sem kenna má við ný­lega upp­bygg­ingu torga í miðborg Reykja­vík­ur. Þegar litið er til fyr­ir­liggj­andi talna­efn­is er ljóst að þessi verk­efni hafa kostað reyk­víska skatt­greiðend­ur veru­lega fjár­hæðir, marga millj­arða króna, talið á gild­andi verðlagi.

Ekk­ert lát virðist vera á fram­kvæmd­um af þess­um toga, sem dæmi var ákveðið fyr­ir skömmu að ýta verk­efn­inu „Vist­göt­ur og göngu­svæði í Kvos“ í enn frek­ari hönn­un­arþóun og áfram stend­ur til að umbreyta Lækj­ar­torgi.

Á meðan svona gælu­verk­efn­um er sinnt í miðborg Reykja­vík­ur skort­ir víða fjár­magn til að Reykja­vík­ur­borg geti sinnt grunnþjón­ustu­hlut­verki sínu með sóma. Þessu til viðbót­ar er skuld­astabbi borg­ar­inn­ar svo hár að lausa­fjárstaða A-hluta borg­ar­inn­ar er háð því að borg­in slái lán á háum vöxt­um og hirði reglu­lega mik­inn arð af rekstri B-hluta fyr­ir­tækja.

Það er nauðsyn­legt að vinda ofan af þess­ari óráðsíu. Sam­hliða þarf að breyta þeirri brengluðu for­gangs­röð sem er of ein­kenn­andi fyr­ir rekst­ur borg­ar­inn­ar.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 24. febrúar 2024.