Fengu konudagsgjöf í Mývatnssveit

Frá Eyjafirðinum lá leið þingflokksins í Þingeyjarsveit sunnudaginn 25. febrúar. Í brakandi blíðu tóku staðarhaldarar í Vogafjósi vel á móti þingflokknum og heimamönnum. Ólöf Hallgrímsdóttir, einn eiganda Vogafjóss, afhenti kvenkyns þingmönnum kvennadagsgjöf með íslenskri hönnun og framleiðslu úr nágrenninu.

Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, þakkaði fyrir gott boð áður en Gerður Sigtryggsdóttir, oddviti sveitastjórnar, og Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri, fóru yfir helstu áskoranir þess að búa í dreifbýlu og víðfeðmu sveitarfélagi eins og Þingeyjarsveit ásamt þeim miklu tækifærum sem náttúruperlur sveitarfélagsins hafa upp á að bjóða í ferðaþjónustu, orkuvinnslu o.fl.

Við lok fundarins þakkaði Berglind Ósk Guðmundsdóttir, þingmaður kjördæmisins, kærlega fyrir höfðinglegar móttökur í þessari brakandi blíðu og enn frekar fyrir konudagsgjöfina.