Skagfirðingar fjölmenntu á líflegan fund með þingflokknum

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins heldur ótrauður áfram á ferð sinni hringinn í kringum landið og hófst laugardagurinn á opnum fundi á Sauðá á Sauðárkróki. Að venju voru móttökurnar höfðinglegar á Króknum og boðið upp á dýrindis bakkelsi og kaffisopa.

Jóel Þór Árnason, varaformaður Sjálfstæðisfélags Skagfirðinga, Guðlaugur Skúlason, sveitarstjórnarfulltrúi og séra Gísli Gunnarsson, fyrrum oddviti Sjálfstæðisflokksins í Skagafirði tóku til máls við góðar undirtektir fundargesta og Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu fór yfir málefni líðandi stundar.

Á fundinum voru málefni Hóla í Hjaltadal, landbúnaðarmál, útlendingamál, orkumál og kjarasamningar helst í brennidepli í líflegum umræðum þingmanna og fundargesta. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins og fjármála- og efnahagsráðherra, þakkaði fundargestum fyrir komuna fyrir hönd þingflokksins.