Orku- og atvinnumál ofarlega á baugi á Blönduósi

Á Blönduósi fékk þingflokkur Sjálfstæðisflokksins afar góðar móttökur í árlegri hringferð sinni um landið á vel setnum fundi á vegum sveitarstjórnarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins og trúnaðarmanna flokksins í Húnabyggð.

Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar flutti erindi um helstu áskoranir sveitarfélagsins um þessar mundir. Þar bar hæst á góma orkumál, flutningskerfi raforku og tækifæri til uppbyggingar í Húnabyggð. Birgir Þór Haraldsson, bóndi á Kornsá í Vatnsdal, flutti einnig erindi þar sem hann ræddi um áskoranir bænda og yfirvonandi íþyngjandi reglusetningar í landbúnaðarmálum.

Teitur Björn Einarsson alþingismaður og Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra þökkuðu heimamönnum fyrir sín erindi og fóru yfir tækifæri til úrbóta og mikilvægis öflugrar samvinnu ríkis og sveitarfélaga í þessum málaflokkum. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra lokaði fundinum. Um kvöldið fór þingflokkurinn á uppistand með Ara Eldjárn og Bergi Ebba á Kaffi Krútti þar sem fullt var út úr dyrum.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur síðustu ár nýtt kjördæmaviku á Alþingi í að hitta og eiga milliliðalaust samtal við Sjálfstæðismenn og kjósendur um land allt ásamt því að heimsækja fyrirtæki og atvinnurekendur.