Góð stemning á fundi með þingflokknum

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hélt á föstudag af stað í árlega hringferð um landið. Þingflokkurinn fundaði með Skagamönnum á opnum súpufundi í safnaðarheimilinu Vinaminni.

Líf Lárusdóttir bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins á Akranesi og Teitur Björn Einarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi ávörpuðu gesti og buðu þá velkomna við góðar undirtektir. Þá þakkaði heimamaðurinn Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokkssins og fjármála- og efnahagsráðherra fundargestum fyrir komuna.

Skagamönnum voru ýmis mál ofarlega í huga, sér í lagi orkumál, hvalveiðar, útlendingamál, samgöngumál og efnahagsmál.

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefur síðustu ár nýtt kjördæmaviku á Alþingi í að hitta og eiga milliliðalaust samtal við sjálfstæðismenn og kjósendur um land allt ásamt því að heimsækja fyrirtæki og atvinnurekendur.