Eldar loga innan Samfylkingarinnar

Óli Björn Kárason alþingismaður:

Kristrún Frosta­dótt­ir, formaður flokks­ins, steig fast til jarðar í viðtali við Þór­ar­in Hjart­ar­son í hlaðvarpsþætt­in­um Ein pæl­ing, fyr­ir nokkr­um dög­um. Þar tók hún í raun und­ir mál­flutn­ing Sjálf­stæðismanna um að sam­ræma yrði lög­gjöf og reglu­verk um hæl­is­leit­end­ur við það sem ger­ist ann­ars staðar á Norður­lönd­um.

Ekki er ólík­legt að Kristrún hafi sótt ráðgjöf í út­lend­inga­mál­um til Mette Frederik­sen, for­sæt­is­ráðherra Dan­merk­ur og for­ystu­konu danskra jafnaðarmanna. Mette koll­varpaði stefnu jafnaðarmanna í út­lend­inga­mál­um enda Dan­ir komn­ir í öngstræti með til­heyr­andi vanda­mál­um. For­veri Kristrún­ar í for­manns­stóli var hins veg­ar ekki hrif­inn. Þegar danska þingið samþykkti ný og harðari lög um hæl­is­leit­end­ur í júní 2021 sagði Logi Ein­ars­son á Sprengisandi Bylgj­unn­ar: „Ég ætla að ganga svo langt að segja að ég bara for­dæmi danska jafnaðar­menn fyr­ir þetta.“

Stefna jafnaðarmanna í Dan­mörku í þessu mál­um get­ur verið góð fyr­ir­mynd okk­ar Íslend­inga þegar tek­ist er á við að breyta lög­um um út­lend­inga, líkt og Guðrún Haf­steins­dótt­ir dóms­málaráðherra hef­ur boðað. Það er ekki ónýtt fyr­ir ráðherr­ann að vita af því að Kristrún tel­ur nauðsyn­legt að „taka hæl­is­leit­enda­kerfið til gagn­gerr­ar skoðunar þar sem að við reyn­um að finna línu sem að er sann­gjörn og mannúðleg og sjálf­bær­ari til lengri tíma“.

Slökkviliðið kallað út

Þegar spurðist út að formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar teldi nauðsyn­legt að breyta stefn­unni í mál­efn­um hæl­is­leit­enda fóru marg­ir á taug­um. Eld­ar brenna og slökkviliðið var kallað út. Tveir gaml­ir for­menn töldu sig nauðbeygða til að taka til bruna­varna fyr­ir Kristrúnu. Össur Skarp­héðins­son hafnaði því að Kristrún hefði verið að boða stefnu­breyt­ingu og í sama streng tók Ingi­björg Sól­rún Gísla­dótt­ir. Kristrún hefði bara verið með „al­menn­ar vanga­velt­ur um ýms­ar hliðar þess­ara mála þar sem grunn­stefið var sann­girni, mannúð og sjálf­bærni“, skrifaði Ingi­björg Sól­rún á Face­book. En hún hafði greini­lega áhyggj­ur af því að hinar al­mennu „vanga­velt­ur“ Kristrún­ar væru að ala á sundr­ungu inn­an flokks­ins: „Lát­um ekki siga okk­ur hverju á annað.“

Ei­rík­ur Berg­mann, pró­fess­or í stjórn­mála­fræði, sagði í sam­tali við frétta­stofu rík­is­ins að um væri að ræða skýra og klára stefnu­breyt­ingu. Sá ágæti maður með stóra Sam­fylk­ing­ar-hjartað, Ólaf­ur Þ. Harðar­son pró­fess­or emer­it­us, benti á í viðtali við rík­is­miðil­inn að formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar hefði ekki komið með nein­ar til­lög­ur um breyt­ing­ar í út­lend­inga­mál­um: „Ég held að það sé vit­leg­ast að hinkra aðeins og sjá hvaða stefna kem­ur úr þessu.“

Guðmund­ur Árni Stef­áns­son, vara­formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, fór strax í varn­ar­lið Kristrún­ar. Hún væri aðeins að boða það að mála­flokk­ur­inn yrði tek­inn föst­um tök­um. Jó­hann Páll Jó­hanns­son, helsti sam­herji Kristrún­ar í þingliði Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, er sam­mála for­mann­in­um um að hæl­is­leit­enda­kerfið sé ósjálf­bært og að Ísland eigi ekki að skera sig úr frá öðrum nor­ræn­um lönd­um. Það tók Loga Ein­ars­son, sem nú er þing­flokks­formaður, nokkra daga að taka und­ir með for­mann­in­um. Hann und­ir­strikaði í sam­tali við mbl.is að ekki væri um „neina grund­vall­ar­stefnu­breyt­ingu að ræða held­ur bendi hún á að þessi nýi veru­leiki sem við búum við kalli á nýja nálg­un“.

Það var fyrst í gær sem Þór­unn Svein­bjarn­ar­dótt­ir tók til máls. „Stefna Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er óbreytt,“ skrifaði Þór­unn hér á síður Morg­un­blaðsins. Eft­ir­tekt­ar­vert er að fram til þessa hef­ur Odd­ný Harðardótt­ir þagað þunnu hljóði. En Dag­björt Há­kon­ar­dótt­ir sem tók sæti á þingi þegar Helga Vala Helga­dótt­ir sagði af sér þing­mennsku, er sam­mála for­mann­in­um. Afstaða Helgu Völu er skýr. Hún á ekki sam­leið með Kristrúnu.

Vildu fleiri flótta­menn

Í sjálfu sér skipt­ir ekki miklu hvor stjórn­mála­fræðipró­fess­or­inn, Ei­rík­ur Berg­mann eða Ólaf­ur Þ. Harðar­son, hef­ur rétt fyr­ir sér. Kristrún Frosta­dótt­ir tal­ar með allt öðrum hætti en þing­menn og fram­bjóðend­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar hafa gert á und­an­förn­um árum. Og það er ekki mik­ill sam­hljóm­ur með orðum Kristrún­ar og álykt­un­um flokks­ins síðustu ár eða mál­flutn­ingi þing­manna Sam­fylk­ing­ar­inn­ar á síðustu árum.

Í stjórn­mála­álykt­un 2018 seg­ir að Sam­fylk­ing­in vilji „byggja upp fjöl­menn­ing­ar­sam­fé­lag á Íslandi. Við vilj­um að Ísland beri meiri ábyrgð og taki á móti fleiri flótta­mönn­um og vandi bet­ur mót­töku á fólki sem sæk­ir um alþjóðlega vernd hér á landi.“ Þessi álykt­un end­ur­speglaðist í grein sem Rann­veig Guðmunds­dótt­ir og Inga Björk Mar­grét­ar Bjarna­dótt­ir, fram­bjóðend­ur Sam­fylk­ing­ar­inn­ar í Suðvest­ur­kjör­dæmi, skrifuðu á vis­ir.is í sept­em­ber 2021: „Sam­fylk­ing­in vill taka við fleira fólki á flótta.“

Í yf­ir­lýs­ingu sem stjórn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar sendi frá sér í júlí 2019 gagn­rýndi flokk­ur­inn „harðlega þær breyt­ing­ar sem rík­is­stjórn­in hef­ur kynnt á út­lend­inga­lög­um og þrengja að rétt­ind­um fólks sem sæk­ir hér um skjól – og auðvelda jafn­vel brott­vís­an­ir til landa eins og Grikk­lands“.

Fimm til­raun­ir

Í viðleitni til að kæfa eld­ana sem Kristrún kveikti inn­an eig­in flokks reyna gaml­ir póli­tísk­ir ref­ir Sam­fylk­ing­ar­inn­ar að kenna Sjálf­stæðis­flokkn­um um hvernig komið er í mál­efn­um hæl­is­leit­enda. Þar eru þeir sam­stíga Guðmund­ur Árni og Össur. Eins og svo oft áður eru fé­lag­arn­ir og sam­herj­ar þeirra sak­laus­ir eins og hvít­voðung­ar. Bar­átt­an og mál­flutn­ing­ur gegn nauðsyn­leg­um laga­breyt­ing­um er gleymd­ur.

Á síðustu árum hafa dóms­málaráðherr­ar ít­rekað lagt fram frum­vörp um breyt­ing­ar á út­lend­inga­lög­um til að ná betri tök­um á mál­efn­um flótta­fólks, tryggja skil­virkni kerf­is­ins og koma í veg fyr­ir að það molni niður vegna álags og kostnaðar. En það hef­ur verið við ramm­an reip að draga.

Í apríl 2019 var lagt fram frum­varp um breyt­ing­ar á lög­um um út­lend­inga. Ekki náðist að mæla fyr­ir frum­varp­inu.

Ári síðar var frum­varpið lagt fram að nýju að mestu óbreytt. Mælt var fyr­ir frum­varp­inu og gekk það til nefnd­ar. Ekki tókst að af­greiða málið úr nefnd.

Í mars 2021 var frum­varpið lagt fram í þriðja sinn með breyt­ing­um. Mælt var fyr­ir mál­inu, það fór til nefnd­ar en sat þar fast.

Í apríl 2022 var frum­varpið lagt fram í fjórða sinn en í breyttri mynd þar sem það náði ein­göngu til breyt­inga á ákvæðum laga um út­lend­inga varðandi alþjóðlega vernd. Auk þess var lögð til breyt­ing á lög­reglu­lög­um. Enn á ný var mælt fyr­ir frum­varp­inu og það gekk til nefnd­ar án þess að það yrði af­greitt.

Haustið 2022 var frum­varpið lagt fram í fimmta sinn. Jón Gunn­ars­son, þáver­andi dóms­málaráðherra, mælti fyr­ir frum­varp­inu í októ­ber 2022. Fyrsta umræða tók rúm­lega ell­efu klukku­stund­ir. Málið gekk síðan til nefnd­ar og þar voru gerðar breyt­ing­ar í viðleitni til að auka sátt um frum­varpið. Önnur umræða tók 91 klukku­stund og þar af at­kvæðagreiðsla þrjá tíma. Málið gekk aft­ur til nefnd­ar og var af­greitt þaðan fljótt. Þriðja umræða stóð í nær tíu klukku­stund­ir og aft­ur tók at­kvæðagreiðsla um þrjá tíma.

All­ir þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar ásamt Pír­öt­um og Viðreisn greiddu at­kvæði gegn frum­varp­inu. Við at­kvæðagreiðslur voru and­stæðing­ar frum­varps­ins harðorðir, ekki síst þing­menn Sam­fylk­ing­ar­inn­ar.

Logi Ein­ars­son: „Þetta mál hef­ur í för með sér mikla aft­ur­för og það fel­ur í sér upp­gjöf, upp­gjöf þeirra þing­manna stjórn­ar­meiri­hlut­ans sem trúðu á og hafa hingað til talað fyr­ir mannúðlegri og frjáls­lynd­ari stefnu í mál­efn­um flótta­fólks gagn­vart frek­um minni hluta sem elur á andúð í garð út­lend­inga… Þeirra er skömm­in í dag. Við í Sam­fylk­ing­unni mun­um öll segja nei við þessu frum­varpi.“

Jó­hann Páll Jó­hanns­son: „Hitt er hins veg­ar al­veg ljóst að hér er á ferðinni þing­mál, hér er á ferðinni frum­varp, sem gref­ur und­an rétt­ind­um fólks … Það verður eft­ir því tekið hvernig at­kvæði falla hér í dag.“

Odd­ný G. Harðardótt­ir: „Við í Sam­fylk­ing­unni höfn­um þessu mis­kunn­ar­leysi og greiðum at­kvæði gegn frum­varp­inu.“

En frum­varpið var samþykkt í mars á síðasta ári. Öllum mátti hins veg­ar vera það ljóst að þörf væri á frek­ari breyt­ing­um til að færa ís­lenska lög­gjöf nær lög­gjöf annarra Norður­landaþjóða. Það er ánægju­legt að fá staðfest­ingu á því að formaður Sam­fylk­ing­ar­inn­ar er kom­inn á sömu skoðun og við Sjálf­stæðis­menn í þeim efn­um. En það mun reyna á póli­tísk bein Kristrún­ar á kom­andi vik­um gagn­vart öfl­um í grasrót Sam­fylk­ing­ar­inn­ar. Og Kristrún mun illa geta reitt sig á slökkvistarf gam­alla formanna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 21. febrúar 2024.