Réttarbætur fyrir sakborninga

Hildur Sverrisdóttir formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins:

Rétt­ar­ríkið er grund­völl­ur sann­gjarns og góðs sam­fé­lags. Við eig­um því að horfa gagn­rýn­um aug­um á hvort lög sem eiga að vera í þágu rétt­ar­rík­is séu það í raun.

Í stjórn­ar­skránni sem og alþjóðasátt­mál­um er kveðið á um rétt manna til rétt­látr­ar málsmeðferðar inn­an hæfi­legs tíma sem tek­ur einnig til mála á rann­sókn­arstigi. Í lög­um um saka­mál er þó ekki að finna nein tíma­mörk á því hversu lengi lög­regla get­ur rann­sakað mál og þar af leiðandi hversu lengi fólk get­ur verið í stöðu sak­born­ings.

Í síðustu viku lagði ég fram frum­varp til að bæta rétt­ar­stöðu sak­born­inga að þessu leyti. Frum­varpið kveður á um að lög­fest­ur verði há­marks­tími saka­mál­a­rann­sókna, sönn­un­ar­byrði um til­efni rann­sókn­ar er færð yfir á lög­reglu og bæt­ur verða veitt­ar vegna óhóf­legr­ar rann­sókn­ar.

Frum­varpið kveður nán­ar til­tekið á um að eft­ir eitt ár af rann­sókn verður lög­regla að fá heim­ild fyr­ir dómi til að halda rann­sókn áfram og þá til ein­ung­is eins árs í senn að há­marki í fimm ár nema í viss­um til­vik­um. Ástæða er til að skerpa á þeim regl­um sem nú gilda um rann­sókn saka­mála og tryggja að rann­sókn­ir drag­ist ekki um of. Til eru dæmi þess að fólk hafi haft rétt­ar­stöðu sak­born­ings árum sam­an jafn­vel án þess að virk rann­sókn hafi staðið yfir megnið af tím­an­um.

Auðvitað er það svo að sum­ar rann­sókn­ir taka lengri tíma en eitt ár. Í þeirri stöðu kveður frum­varpið á um að eft­ir það verður lög­regla að færa rök fyr­ir dómi um að ástæða sé til að halda rann­sókn­inni áfram. Það er á all­an hátt eðli­legra að lög­regla færi rök fyr­ir því frek­ar en að sak­born­ing­ur þurfi að sýna fram á hið gagn­stæða eins og lög­in eru í dag vegna þeirr­ar yf­ir­burðastöðu sem lög­regla hef­ur gagn­vart sak­born­ingi.

Að hafa stöðu sak­born­ings hef­ur gríðarlega íþyngj­andi áhrif á ein­stak­linga og get­ur sömu­leiðis haft bein laga­leg áhrif á hags­muni fólks. Það er eðli­legt og sann­gjarnt að við viður­kenn­um þau íþyngj­andi áhrif sem saka­mál­a­rann­sókn hef­ur á ein­stak­linga og að skýrt sé kveðið í lög­um á um að mælt sé fyr­ir um bóta­skyldu rík­is­ins þegar rann­sókn­ir drag­ast án ástæðu fram úr hófi, málið sé svo fellt niður eða það end­ar með sýknu.

Með lög­um skal land byggja og lög og regla er sam­fé­lags­sátt­máli sem við verðum öll að und­ir­gang­ast svo við fáum áfram notið þess ör­ygg­is sem við búum hér við í friðsæl­asta ríki heims. Lög­regla verður í því að hafa það sem þarf til að geta sinnt sín­um störf­um eins og nauðsyn­legt er. En það er líka nauðsyn­legt að virða stöðu og mann­rétt­indi sak­born­inga eins og kost­ur er. Sam­fé­lags­sátt­mál­ann sem við und­ir­geng­umst bless­un­ar­lega fyr­ir löngu um sak­leysi uns sekt er sönnuð verður að vernda. Það er angi af þeim sátt­mála sem krefst at­hygli okk­ar að draga úr tím­an­um sem það tek­ur að fá úr því skorið.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 19. febrúar 2024.