Breytum Reykjavík

Helgi Áss Grétarsson, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Á þeim tíma sem er liðinn síðan ný borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur kom fyrst sam­an í byrj­un júní 2022 hafa nokk­ur grund­vall­ar­atriði orðið bæri­lega skýr. Það þýðing­ar­mesta er hversu nauðsyn­legt það er að ná tök­um á rekstri stærsta sveit­ar­fé­lags lands­ins svo það hætti að reiða sig á dýr lán til að tryggja sér laust fé. Annað afar veiga­mikið atriði er að raun­sæi, en ekki draumór­ar, ráði för við að bæta sam­göngu­mál höfuðborg­ar­svæðis­ins.

Hvor­ugt þess­ara atriða er unnt að leysa án þess að breyta fyrst stjórn­sýslu­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar. Sem sagt: verði stjórn­sýslu­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar ekki end­ur­hugsað verður fáu breytt hjá borg­inni.

Eins og staðan er akkúrat núna hafa of marg­ir aðilar hags­muni af því að viðhalda stærð kerf­is­ins og því gild­is­mati sem það starfar eft­ir. Engu breyt­ir hér að marg­ir öfl­ug­ir emb­ætt­is­menn hjá Reykja­vík­ur­borg sinna störf­um sín­um af alúð í þágu borg­ar­búa.

Eigi að síður er hægt að breyta borg­inni. Að mínu mati væri far­sælt til að byrja með að fækka ráðum, sviðum og nefnd­um Reykja­vík­ur­borg­ar. Jafn­framt þarf borg­in að þrýsta á um að lög­um sé breytt svo að kjörn­um full­trú­um í borg­ar­stjórn verði fækkað. Frek­ari skref þarf svo að stíga til að ein­falda rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar, minnka báknið og breyta Reykja­vík til að gera hana að betri borg.

Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn: Ásýnd eða efn­is­legt inni­hald?

„Breyt­um Reykja­vík“ var slag­orð Fram­sókn­ar­flokks­ins fyr­ir borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­ar vorið 2022. Eft­ir mik­inn kosn­inga­sig­ur end­ur­reisti flokk­ur­inn meiri­hluta í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur sem hafði fallið í kosn­ing­un­um. Borg­ar­stjóri sem hafði gegnt því embætti í sam­fleytt átta ár og flokk­ur hans tapað miklu fylgi í kosn­ing­un­um vorið 2022 fékk að halda í stól­inn í rúma 18 mánuði í viðbót.

Það voru þá all­ar breyt­ing­arn­ar.

Fyr­ir skömmu varð þó sú breyt­ing að odd­viti Fram­sókn­ar­flokks­ins í borg­ar­stjórn Reykja­vík­ur varð borg­ar­stjóri.

En þá kom­um við að veiga­mesta fram­lagi þess­ar­ar grein­ar. Fram­sókn­ar­flokk­ur­inn mun litlu sem engu breyta nema gripið sé til upp­skurðar á stjórn­sýslu­kerfi Reykja­vík­ur­borg­ar. Lít­il hætta er hins veg­ar á að það ger­ist með starf­andi sam­starfs­flokk­um Fram­sókn­ar­flokks­ins enda emb­ætt­is­manna­kerfi borg­ar­inn­ar víða orðið sam­gróið þeim stjórn­mála­öfl­um.

Staða borg­ar­stjóra Fram­sókn­ar­flokks­ins er því snú­in.

Þótt hann geti án efa mótað vandaðar umbúðir um ímynd sína er lík­legt að hann komi litlu í verk. Rekst­ur Reykja­vík­ur­borg­ar verður áfram háður dýr­um lán­um. Sam­göng­ur munu ekki batna, þvert á móti munu taf­irn­ar í um­ferðinni aukast. Í skipu­lags­mál­um mun hug­mynda­fræði Sam­fylk­ing­ar­inn­ar ráða för. Biðlist­ar eft­ir leik­skóla­pláss­um munu hald­ast lang­ir. Og svo mætti lengi telja af óleyst­um viðfangs­efn­um á vett­vangi borg­ar­mál­anna.

Loka­orð

Að mínu mati horf­ir margt í fram­komu nú­ver­andi borg­ar­stjóra til fram­fara í sam­an­b­urði við for­vera hans. Á hinn bóg­inn er vand­inn sá að fram til vors­ins 2026 má vænta fárra ef nokk­urra efn­is­legra breyt­inga á stjórn borg­ar­inn­ar.

Vænt­an­lega verður það Fram­sókn­ar­flokkn­um dýrt í næstu borg­ar­stjórn­ar­kosn­ing­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 2024.