Er kominn tími á Sundabyggð?

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Ríki og sveit­ar­fé­lög und­ir­rituðu á síðastliðnu ári sam­komu­lag um upp­bygg­ingu 35.000 íbúða hér­lend­is næstu 10 árin. Reykja­vík­ur­borg skyldi byggja 2.000 íbúðir ár­lega fyrstu fimm árin en 1.200 íbúðir ár­lega næstu fimm árin. Áformin voru viðbragð við viðvar­andi hús­næðis­skorti sem jafn­framt er fyr­ir­sjá­an­leg­ur til framtíðar.

Staðan hef­ur hins veg­ar tekið nokkr­um breyt­ing­um með hliðsjón af jarðhrær­ing­um á Reykja­nesskaga. Ofan á áður þekkta hús­næðisþörf bæt­ist nú bráðavandi Grind­vík­inga. Íbúar sveit­ar­fé­lags­ins bjuggu áður í tæp­lega 1.200 íbúðum í Grinda­vík en þurfa nú að leita hús­næðis ann­ars staðar.

Sunda­byggð sam­hliða Sunda­braut

Á fundi borg­ar­stjórn­ar síðastliðinn þriðju­dag lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur fram til­lögu sem bygg­ist á því að fjölga skil­greind­um upp­bygg­ing­ar­svæðum í aðal­skipu­lagi Reykja­vík­ur með hliðsjón af elds­um­brot­um á Reykja­nesskaga. Jarðhrær­ing­arn­ar hafa þegar sett ýmis upp­bygg­ingaráform á stór­höfuðborg­ar­svæðinu í upp­nám. Auk­inn þrýst­ing­ur hef­ur skap­ast á ný svæði og kall­ar fyr­ir­liggj­andi bráðavandi á hús­næðismarkaði á yf­ir­vegað viðbragð og skyn­sam­lega fyr­ir­hyggju.

Með til­lög­unni sett­um við á dag­skrá umræðu um Sunda­byggð – nýja íbúðarbyggð á svæðum aðliggj­andi Sunda­braut. Mik­il­vægi Sunda­braut­ar hef­ur að und­an­förnu verið und­ir­strikað. Þegar sú mik­il­væga sam­göngu­bót verður að veru­leika opn­ast fjöl­mörg ný upp­bygg­ing­ar­tæki­færi á svæðum aðliggj­andi braut­inni, til dæm­is á Kjal­ar­nesi. Hug­mynd­ina er bæði tíma­bært og skyn­sam­legt að ræða á þess­ari stundu.

Meiri­hlut­inn klof­inn um framtíð Reykja­vík­ur

Meiri­hluti borg­ar­stjórn­ar treysti sér ekki til að taka af­stöðu til til­lög­unn­ar á fundi borg­ar­stjórn­ar. Var henni þess í stað vísað í nefnd, en þangað fara al­mennt all­ar góðar til­lög­ur til svæf­ing­ar. Und­ir­liggj­andi ástæðan var hin aug­ljósa ósamstaða meiri­hluta­flokk­anna í skipu­lags­mál­um borg­ar­inn­ar. Þau treysta sér ekki til að standa sam­an að at­kvæðagreiðslum um mik­il­væg skipu­lags­mál, enda er sýn flokk­anna á framtíðar­skipu­lag borg­ar­inn­ar gjör­ólík. Það er ljóst að svo ósam­stæður meiri­hluti kem­ur varla nokkru í verk – og und­ir þeirra stjórn mun ekk­ert breyt­ast.

Við sjálf­stæðis­menn erum skýr í okk­ar stefnu. Við telj­um nauðsyn­legt að ráðast í kröft­uga hús­næðis­upp­bygg­ingu um alla borg. Við vilj­um skipu­leggja ný hverfi sam­hliða því að þétta byggð inn­an hverfa sem hafa til þess svig­rúm, í sátt við íbúa og um­hverfi. Við vilj­um ein­falda stjórn­sýsl­una, stytta af­greiðslu­fresti og skapa um­hverfi sem er vin­veitt hvers kyns fram­taki. Við vilj­um end­ur­skoða aðal­skipu­lag og tryggja hag­stætt lóðafram­boð – því þótt borg­in beri ekki ein ábyrgð á hús­næðis­vand­an­um get­ur hún sann­ar­lega lagt sitt af mörk­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 15. febrúar 2024.