Þingmenn Sjálfstæðisflokks auk þingmanna fjögurra annarra þingflokka hafa lagt fram frumvarp á Alþingi þar sem lagt er til að lögum um meðferð sakamála verði breytt.
Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokks er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins.
Í lögunum er m.a. lagt til að rannsókn sakamála megi ekki standa lengur en eitt ár. Dómstólar geti þó að uppfylltum tilteknum skilyrðum heimilað framlengingu á rannsókn. Rannsókn megi þó aldrei standa lengur en í fimm ár.
Í frumvarpinu er einnig lagt til að ef rannsókn er hafin á sakamáli verði lögreglu skylt að hætta henni ef ekki þykir grundvöllur til að halda henni áfram, svo sem ef í ljós kemur að kæra hefur ekki verið á rökum reist. Jafnframt geti lögregla hætt rannsókn máls ef brot er smávægilegt og fyrirsjáanlegt er að rannsóknin muni hafa í för með sér óeðlilega mikla fyrirhöfn og kostnað.