Ríkisvæðum Heimildina?

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Á þessum miðli er ítrekað fjallað um og vísað í svokallaða einkavæðingu. Sem lesandi og áskrifandi rennur mér blóðið til skyldunnar að leiðrétta þessa orðnotkun. Enda er hún til þess fallin að afvegaleiða lesendur. Það þarf heldur ekki að leggjast í víðtæka rannsóknarvinnu ef þessi hugtök vefjast fyrir manni. Vísindavefurinn bendir á að orðið einkavæðing sé þýðing á enska orðinu privatization. Einkavæðing er þegar fyrirtæki eða stofnun í eigu hins opinbera er fært í eigu einkaaðila. Dæmi um það gæti verið ef Ríkisútvarpið yrði selt einkaaðilum og útvarpsgjaldið og önnur opinber fjárframlög yrðu lögð af.

Orðnotkun Heimildarinnar er sérstaklega áberandi í tengslum við íslenska heilbrigðiskerfið. Í því samhengi hefur því t.a.m. verið haldið orðrétt fram að heilbrigðisráðherra sé að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið. Heilbrigðisráðherra hefur gert þjónustusamninga á kjörtímabilinu við einkaaðila um heilbrigðisþjónustu til að létta undir með opinberum heilbrigðisstofnunum, stytta biðlista og auka rekstrarhagkvæmni. Slíkir samningar hafa engu breytt um greiðsluþátttöku fyrir heilbrigðisþjónustuna eða um ábyrgð á veitingu hennar. Grundvöllur fyrir heilbrigðisþjónustu á Íslandi er og verður áfram sterkt kerfi almannatrygginga þar sem greiðsluþátttaka sjúklinga er takmörkuð.

Þegar við glímdum við heimsfaraldur lokaði Klíníkin tímabundið starfsemi sinni til að aðstoða Landspítalann. Stjórnendur spítalans hafa sjálfir leitað til Klíníkurinnar um aðstoð við að stytta biðlista eftir aðgerðum. Fjölmargar heilsugæslustöðvar landsins eru einkareknar og skjólstæðingar þeirra eru almennt ánægðari en hjá þeim opinberu. Flestir landsmenn sem nýta þjónustu sjúkraþjálfara njóta góðs af einkaframtakinu. Þetta eru allt dæmi um einkarekstur í heilbrigðisþjónustu þar sem sjúklingar velta því tæplega fyrir sér hver veitir þjónustuna heldur hvort hún er yfirhöfuð veitt og hversu fljótt og vel. Það er ekki verið að einkavæða íslenska heilbrigðiskerfið. Það er verið að nýta fjölbreytt rekstrarform til hagsbóta fyrir sjúklinga. Stjórnvöld nýta þannig einkaframtakið til þess að tryggja hagkvæmari og fjölbreyttari þjónustu. Norðurlöndin, sem við berum okkur svo gjarnan saman við, gera þetta raunar í mun meiri mæli en við.

Áratugum saman einokaði ríkið útvarpsrekstur á Íslandi. Árið 1984 varð útvarpsrekstur hér frjáls.  Frjálslynt fólk, einkum í Sjálfstæðisflokknum, hafði barist fyrir frjálsu útvarpi um árabil. Síðan þá hafa fjölmiðlar auglýst sig sem óháðir, að þeir veiti stjórnvöldum virkt aðhald og stuðli að lýðræðislegri umræðu. Ríkismiðlar eru ekki í sömu stöðu til þess. Engum dettur því í hug að snúa til baka – að stjórnvöld myndu ríkisvæða Heimildina, Morgunblaðið og Vísi. Einhverjir myndu jafnvel segja að ríkið ætti að láta enn minna fyrir sér fara á fjölmiðlamarkaði til að leyfa einkaaðilum í fjölmiðlarekstri að blómstra enn frekar.

Greinin birtist á Heimildinni 14. febrúar 2024.