Náttúruvá og skipulagshugmyndir

Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi:

Elds­um­brot­in á Reykja­nesi vekja nú sér­staka at­hygli á byggðaþróun, skipu­lagi og sam­göngu­stefnu sem við sjálf­stæðis­menn í Reykja­vík höf­um beitt okk­ur fyr­ir í gegn­um tíðina. Þetta eru hug­mynd­ir um áfram­hald­andi rekst­ur Reykja­vík­ur­flug­vall­ar í Vatns­mýr­inni, upp­bygg­ingu í Úlfarsár­daln­um, þróun íbúðarbyggðar inn og norður með Sund­um, í átt að Kjal­ar­nesi, lagn­ingu Sunda­braut­ar og íbúðarbyggð í Geld­inga­nesi. Allt eru þetta hug­mynd­ir sem fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri hef­ur hafnað og ekki mátt heyra minnst á. En nú eru þær nauðsyn­leg og tíma­bær viðbrögð við nátt­úru­vá, vax­andi um­ferðart­öf­um og yf­ir­vof­andi gíf­ur­leg­um hús­næðis­skorti.

Reykja­vík­ur­flug­völl­ur – ör­ygg­is­hlut­verk á óvissu­tím­um

Í næsta mánuði verður lögð fram skýrsla sér­fræðinga um áformað flug­vall­ar­stæði í Hvassa­hrauni sem þá verður að öll­um lík­ind­um end­an­lega blásið af. Þar með verður leit að nýju flug­vall­ar­stæði aft­ur kom­in á núllpunkt. Ein­ung­is fyrr­ver­andi borg­ar­stjóri held­ur enn í von og vilja til að reisa flug­völl í Hvassa­hrauni. Finn­ist nýr staður um síðir taka við tíma­frek­ar rann­sókn­ir og því næst a.m.k. 15 til 20 ára upp­bygg­ing­ar­tíma­bil.

Reykja­vík­ur­flug­völl­ur verður því áfram í Vatns­mýr­inni um ára­tuga skeið og mik­il­vægi hans, ekki síst ör­ygg­is­hlut­verk, mun að öll­um lík­ind­um aukast mjög vegna óvissu og langvar­andi nátt­úru­ham­fara á Reykja­nesi. Við slík­ar aðstæður yrðu frek­ari þreng­ing­ar að vell­in­um, af manna völd­um, aug­ljós ógn­un við sam­göngu­kerfi og ör­ygg­is­hags­muni þjóðar­inn­ar.

Borg­ar­yf­ir­völd verða því að láta af öll­um áform­um um að reisa íbúðarbyggð nán­ast ofan í flug­braut­um vall­ar­ins, eins og skipu­lag hins nýja Skerja­fjarðar ger­ir ráð fyr­ir. Við nú­ver­andi aðstæður þarf Reykja­vík­ur­flug­völl­ur á öllu sínu landsvæði að halda, meðal ann­ars fyr­ir flug­hlöð sem vara­flug­völl­ur, þar með talið það svæði þar sem nú er fyr­ir­hugað að reisa hinn nýja Skerja­fjörð. Reisa þarf sóma­sam­lega flug­stöð sem tengja mætti sam­göngumiðstöð annarra ferðamáta og breyta aðal­skipu­lagi til að tryggja stöðu Reykja­vík­ur­flug­vall­ar.

Meiri upp­bygg­ing í Úlfarsár­dal

Íbúðaupp­bygg­ing hef­ur dreg­ist mjög sam­an í Reykja­vík á þétt­ing­ar­tíma­bil­inu frá 2013. Hátt lóðaverð á dýr­um þétt­ing­ar­reit­um var helsta ástæðan fyr­ir fast­eigna­verðbólg­unni og fram­boð á nýj­um íbúðum hef­ur verið afar ein­hæft um ára­bil. Hátt vaxta­stig að und­an­förnu og hörm­ung­arn­ar í Grinda­vík auka enn á hús­næðis­skort­inn, sem á eft­ir að fara í nýj­ar hæðir á næstu miss­er­um ef ekki verður brugðist við af festu. Við þess­ar aðstæður þarf m.a. að hefja íbúðaupp­bygg­ingu í Úlfarsár­dal sem allra fyrst

Sunda­braut í for­gang

Vegna elds­um­brot­anna telja skipu­lags­fræðing­ar nú ein­sýnt að byggð Reykja­vík­ur bein­ist inn með Sund­um og í átt að Kjal­ar­nesi. Gera þarf því strax viðeig­andi breyt­ing­ar á aðal­skipu­lagi til að hraða slíkri upp­bygg­ingu. Sunda­braut er nauðsyn­leg for­senda slíkr­ar byggðarþró­un­ar. Hún myndi draga úr þeim miklu um­ferðart­öf­um sem nú eru tald­ar kosta íbúa höfuðborg­ar­svæðis­ins um 80 millj­arða á ári. Lagn­ing fyrsta áfanga Sunda­braut­ar myndi draga úr um­ferðarþunga um Ártúns­brekku, dreifa um­ferð, auka um­ferðarör­yggi, stytta vega­lengd­ir og draga úr um­ferðarmeng­un. Síðast en ekki síst yrði hún mik­il­væg ör­ygg­is- og flótta­leið við hóp­rým­ing­ar. Ég flutti til­lögu í borg­ar­stjórn um Sunda­braut árið 2017 sem þá var samþykkt og sem kom und­ir­bún­ingi henn­ar aft­ur á rek­spöl. En við nú­ver­andi aðstæður er nauðsyn­legt að hefja fram­kvæmd­ir við Sunda­braut sem fyrst.

Íbúðarbyggð í Geld­inga­nesi

Geld­inga­nesið er óbyggt og þar blasa við tæki­færi til mik­ill­ar upp­bygg­ing­ar. Ólíkt þétt­ing­ar­reit­um í eldri byggð er þar hægt, án nokk­urs niðurrifs, að skipu­leggja og hefja upp­bygg­ingu án taf­ar. Geld­inga­nesið er í eigu Reykja­vík­ur­borg­ar. Þar má því halda lóðaverði hófstilltu, ólíkt lóðum á þétt­ing­ar­reit­um, í einka­eign fjár­sterkra aðila, lóðum sem ganga kaup­um og söl­um milli fjár­festa og verk­taka, sem maka þannig krók­inn og hækka lóða- og íbúðaverð, löngu áður en haf­ist er handa við að reisa þar íbúðarbyggð. Víðfeðmi Geld­inga­ness­ins sam­svar­ar öllu svæðinu frá Ánanaust­um að Rauðar­ár­stíg og frá Sæ­braut að Hring­braut. Þar mætti á skömm­um tíma skipu­leggja 20 þúsund manna íbúðarbyggð. Ég flutti til­lögu um íbúðarbyggð í Geld­inga­nesi árið 2020 og hef haldið ótrauð áfram að vinna því máli braut­ar­gengi.

Óvissu­tím­ar kalla á breytt viðhorf

Hér hafa verið nefnd dæmi um fjög­ur mik­il­væg verk­efni sem nú bíða úr­lausn­ar við nýj­ar og erfiðari aðstæður en áður. Öll hefðum við kosið að nátt­úru­öfl­in hefðu hlíft okk­ur við þeirri vá sem nú ógn­ar verðmæt­um sam­fé­lags­innviðum á Reykja­nesi. Við nú­ver­andi aðstæður veit eng­inn hvað nýhafið elds­um­brota­skeið á eft­ir kosta þessa fá­mennu þjóð. En áföll­in eru til að læra af þeim. Það ger­um við með því að hætta að bruðla með al­manna­fé; hætta að hugsa um krúnu­djásn yfir Foss­vog­inn og aðrar svim­andi kostnaðarsam­ar skýja­borg­ir sem aldrei verða að veru­leika. Það ger­um við með því að bretta upp erm­ar og láta verk­in tala, með ráðdeild og áræði. Oft var þörf en nú er nauðsyn.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 10. febrúar 2024.