Skilvirkni og sparnaður

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Öflug­ir inn­lend­ir sam­keppn­is­sjóðir skipta máli fyr­ir rann­sókn­ir og ný­sköp­un á Íslandi og því er mik­il­vægt að þeir séu ein­fald­ir, hag­kvæm­ir og skil­virk­ir. Ég hef því lagt til aðgerðir sem ekki aðeins spara um­tals­verða fjár­muni held­ur bæta um­hverfi op­in­berra sam­keppn­is­sjóða svo um mun­ar. Við vinn­um nú að því að fækka sam­keppn­is­sjóðum sem starf­rækt­ir eru á veg­um há­skóla-, iðnaðar- og ný­sköp­un­ar­ráðuneyt­is­ins úr átta í þrjá. Sam­hliða því ætl­um við að koma á fót einni um­sókn­argátt og lög­festa áhrifamat sjóðanna. Þá verður skerpt á hlut­verki Rannís sem um­sýslu- og þjón­ustu­stofn­un op­in­berra sam­keppn­is­sjóða.

Sam­keppn­is­sjóðir hins op­in­bera á veg­um ráðuneyta eru hið minnsta 75 tals­ins. Um­fang þeirra er mis­jafnt og eru út­hlut­an­ir allt frá nokkr­um millj­ón­um króna í nokkra millj­arða. Um­sýsla þeirra er nú hjá 37 mis­mun­andi um­sýsluaðilum. Við blas­ir að hverj­um sjóði fylg­ir ákveðin föst vinna, óháð um­fangi hans. Smæstu sjóðirn­ir eru mjög óhag­kvæm­ir í rekstri. Þá eru 55 sjóðir með skipaðar stjórn­ir og þar eru ekki tald­ar með út­hlut­un­ar­nefnd­ir eða fagráð. Í flest­um stjórn­um sitja þrír til fimm stjórn­ar­menn sem í lang­flest­um til­vik­um fá greitt fyr­ir stjórn­ar­setu. Áætla má að stjórn­ar­menn séu 220 til 240 tals­ins og að um­sýslu­kostnaður sjóðanna sé vel yfir millj­arður króna ár­lega.

Þessu þarf að breyta með auk­inni hagræðingu. Unnið verður að því að koma á einni sjóðagátt sem all­ir op­in­ber­ir aðilar geta nýtt sér til að auka hag­kvæmni við út­hlut­un. Gátt­in mun auka skil­virkni og gagn­sæi og ýta und­ir að hægt sé að fækka enn frek­ar sjóðum og stjórn­ar­mönn­um. Jafn­framt mun hún veita betri yf­ir­sýn og bæta nýt­ingu fjár­magns, sem kem­ur í veg fyr­ir sóun. Þá mun ein gátt spara um­sækj­end­um, frum­kvöðlum og fyr­ir­tækj­um tíma og vinnu við að sækja í sam­keppn­is­sjóði hins op­in­bera.

Þess­ari vinnu er ætlað að auðvelda og leggja grunn­inn að því að fækka enn frek­ar sjóðum til að auka ár­ang­ur og skil­virkni op­in­berra sam­keppn­is­sjóða á Íslandi auk þess sem hægt er að spara rík­is­sjóði, og þar með skatt­greiðend­um, nokk­ur hundruð millj­ón­ir króna ár­lega.

Sam­hliða þurf­um við að tryggja að sam­fé­lags­leg áhrif sam­keppn­is­sjóða nýt­ist sam­fé­lag­inu. Það er erfitt að rétt­læta til­urð sjóða sem ekki er hægt að sýna fram á að skili um­tals­verðum sam­fé­lags­leg­um ávinn­ingi.

Ísland á mikið und­ir því að fjölga stoðum efna­hags­lífs­ins og auka verðmæta­sköp­un í sam­fé­lag­inu. Nátt­úr­an sýn­ir okk­ur mátt sinn reglu­lega, kraft­ur­inn get­ur verið ógn­væn­leg­ur og af­leiðing­ar al­var­leg­ar. Það er til mik­ils að vinna að við styðjum við aukna verðmæta­sköp­un til að auka lífs­gæði hér á landi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. febrúar 2024.