Brýnt að auka landamæraeftirlit

Diljá Mist Einarsdóttir alþingismaður:

Lög­reglu­yf­ir­völd hafa lengi varað við auk­inni ógn vegna skipu­lagðrar brot­a­starf­semi sem fer þvert á landa­mæri. Gengið svo langt að segja um­fangið og stöðuna vera grafal­var­leg. Stór­auk­in um­svif alþjóðlegra glæpa­hópa eru greini­leg hér á landi, m.a. á sviði fíkni­efna­sölu og man­sals. Skipu­lögð brot­a­starf­semi mun aðeins halda áfram að aukast verði ekk­ert að gert. Slíkt ástand er ógn við ör­yggi ís­lensks sam­fé­lags, ekki síst fólks í viðkvæmri stöðu. Veik­leik­ar á landa­mær­um eru helsta áhyggju­efnið og við ætt­um að leita allra leiða til að stoppa þar í göt­in.

Í ný­legri um­fjöll­un um Schengen-sam­starfið benti ég á að það væru ýmis heima­til­bú­in vand­ræði sem yllu veik­leika landa­mæra okk­ar, meðal ann­ars að við nýtt­um okk­ur ekki sam­starfið og heim­ild­ir þess til fulls. Annað sem ég benti á er tregða er­lendra flug­fé­laga til að fara að ís­lensk­um lög­um og af­henda yf­ir­völd­um hér farþegalista fyr­ir komu til lands­ins.

Ég hef mikl­ar áhyggj­ur af þess­um mál­um og hef því lagt fram fyr­ir­spurn á Alþingi til dóms­málaráðherra. Ann­ars veg­ar um hvernig það sé tryggt að er­lend flug­fé­lög sem fljúga hingað til lands fram­fylgi laga­legri skyldu sinni um að af­henda upp­lýs­ing­ar um farþega og áhöfn. Ráðherr­ann hafði áður upp­lýst að upp­lýs­ing­ar væru veitt­ar um mik­inn meiri­hluta flug­f­arþega og að unnið væri að því að ná utan um aðra. Ég hef einnig óskað eft­ir upp­lýs­ing­um um það hvaða viður­lög­um sé beitt brjóti flug­fé­lög gegn þess­ari laga­skyldu og hvort dæmi séu um það.

Hins veg­ar hef ég lagt fram fyr­ir­spurn um aukið eft­ir­lit á landa­mær­um okk­ar og til hvaða aðgerða hafi verið gripið til að auka eft­ir­lit á landa­mær­un­um. Hvort til­efni sé til að koma á tíma­bund­inni vega­bréfa­skyldu eins og heim­ilt er skv. Schengen-sam­komu­lag­inu og víða hef­ur verið gert í Norður-Evr­ópu. Svíþjóð hef­ur t.a.m. oft­ar en einu sinni gripið til þeirr­ar ráðstöf­un­ar svo mánuðum skipt­ir vegna áhyggja af stöðu landa­mæra sinna. Sömu­leiðis hvort komi til álita að taka upp tíma­bundna upp­töku vega­bréfs­árit­ana frá til­tekn­um lönd­um.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 6. febrúar 2024.