Samfélag hreyfanleika

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra:

Stjórn­mál snú­ast um það hvernig við vilj­um að sam­fé­lagið okk­ar sé skipu­lagt. Þar á meðal felst það í ákvörðunum stjórn­mál­anna að ákveða hvernig við reyn­um að tryggja að hags­mun­ir ein­stak­ling­anna fari sem best sam­an við hags­muni sam­fé­lags­ins í heild. Við vilj­um að þeir ein­stak­ling­ar sem leggja mikið af mörk­um fái að njóta þess en að öll njót­um við þess ör­ygg­is sem get­ur fal­ist í því að búa í góðu og auðugu sam­fé­lagi.

Þegar kem­ur að því að verðlauna þau sem ná að leggja mikið af mörk­um í sam­fé­lag­inu felst það ekki bara í að fólk fái notið fram­lags síns í laun­um eða pen­ing­um; mörg okk­ar eru upp­tek­in af allt öðrum hlut­um. Virðing, ár­ang­ur og lífs­fyll­ing eru alls ekki síðri hvatn­ing til góðra verka held­ur en pen­ing­ar, og senni­lega mun betri.

Þetta kann að hljóma und­ar­lega kom­andi frá fjár­mála- og efna­hags­málaráðherra sem dvel­ur daga langa með nefið ofan í Excel-skjöl­um og efna­hags­skýrsl­um. Vissu­lega skipta pen­ing­ar máli í sam­fé­lag­inu og þjóna ómiss­andi hlut­verki við að tryggja að við get­um nálg­ast vör­ur og þjón­ustu, að merkja­send­ing­ar milli kaup­enda og selj­enda segi til um hvernig hægt sé að laga fram­boð að eft­ir­spurn. En rétt eins og hundrað metra hlaup snýst ekki um sek­únd­ur held­ur hraða, þá er það mark­mið stjórn­mál­anna að stuðla að því að í sam­fé­lag­inu verði til raun­veru­leg lífs­gæði og pen­ing­arn­ir eru mæliein­ing sem seg­ir stór­an hluta af sög­unni um hvernig geng­ur, en seg­ir ekki alla sög­una.

Sköp­un­ar­kraft­ur­inn

Eitt af því sem skipt­ir af­ger­andi máli er hvernig sam­fé­lagi geng­ur að leyfa nýj­um hug­mynd­um að skjóta rót­um. Kyrrstaða er ákaf­lega óholl fyr­ir okk­ur sem ein­stak­linga og er ban­væn fyr­ir sam­fé­lög. Þess vegna ætti það alltaf að vera of­ar­lega á baugi hjá stjórn­mála­mönn­um að gæta þess að við séum sam­fé­lag þar sem fólk finn­ur að það fel­ast tæki­færi í því að skapa nýja hluti, tala fyr­ir nýj­um hug­mynd­um og prófa að fara ótroðnar slóðir. Hvað sem líður öll­um þeim miklu auðlind­um sem við Íslend­ing­ar njót­um í svo rík­um mæli, þá er sköp­un­ar­kraft­ur ein­stak­lings­ins hin óþrjót­andi um­hverf­i­s­væna og sjálf­bæra auðlind sem ræður úr­slit­um um lífs­gæði í land­inu.

Ný­sköp­un­ar­landið Ísland

Það var því ákaf­lega gleðilegt að sjá frétt­ir í vik­unni sem staðfesta enn og aft­ur að Ísland er um þess­ar mund­ir á réttri leið þegar kem­ur að um­hverfi ný­sköp­un­ar og frum­kvöðla­starf­semi. Í sam­an­b­urði á frum­kvöðla­starfi í ríkj­um OECD er Ísland nú í ní­unda sæti og höf­um við verið að fikra okk­ur upp á slík­um list­um und­an­far­in ári. Þessi góða staða er eng­in til­vilj­un held­ur bein af­leiðing af vinnu framúrsk­ar­andi og skap­andi ein­stak­linga sem taka áhættu og þora að láta reyna á hug­mynd­ir sín­ar. Stjórn­völd hafa líka lagt sitt af mörk­um með ákvörðunum síðustu ára þar sem hef­ur meðal ann­ars verið aukið veru­lega við stuðning vegna rann­sókna og þró­un­ar og heild­stæð ný­sköp­un­ar­stefna hef­ur verið mótuð, sem fel­ur í sér sér­staka áherslu á frum­kvöðladrifna ný­sköp­un.

Að gera gagn

Sam­fé­lag þar sem virðing er bor­in fyr­ir sköp­un og fólk þorir að taka áhættu get­ur náð að vinna bug á jafn­vel allra erfiðustu áskor­un­um. Þetta snýst vita­skuld um góða og skyn­sam­lega um­gjörð, þar sem ekki eru lagðar óeðli­leg­ar hindr­an­ir í veg fyr­ir at­hafna­frelsi fólks. Í því sam­hengi er gott að haf­in sé mark­viss vinna við að vinda ofan af svo­kallaðri „gull­húðun“ í ís­lenskri lög­gjöf þegar kem­ur að alþjóðleg­um skuld­bind­ing­um. Þegar um­gjörðinni slepp­ir er það svo hug­ar­farið sem lík­lega ræður einna mestu, og þar er mik­il ábyrgð okk­ar allra sem för­um með for­ystu­hlut­verk í sam­fé­lag­inu. Við eig­um að vera dug­leg að hampa þeim sem þora að sigla móti straumn­um, prófa nýja hluti og segja umbúðarlaust skoðanir sín­ar; allt eru þetta ómiss­andi hlut­ar af kraft­miklu og skap­andi sam­fé­lagi. Sú virðing sem við ber­um fyr­ir fram­lagi hvert ann­ars skipt­ir því líka máli, því í gagn­kvæmri virðingu er að finna sam­fé­lags­legt eldsneyti og hvatn­ingu sem get­ur haft áhrif ekki síður en pen­ing­ar.

Allt hang­ir þetta sam­an og líka við rík­is­fjár­mál­in. Ný­sköp­un og frum­kvöðlastarf er for­senda fram­fara sem eru aft­ur for­senda þess að rík­is­sjóður geti tek­ist á við áskor­an­ir í dag og í framtíðinni. Við mynd­um gera sjálf­um okk­ur og kom­andi kyn­slóðum sér­stak­lega mik­inn greiða með því að huga oft­ar að því sam­hengi.

Greinin birtist í sunnudagsblaði Morgunblaðsins 4. febrúar 2024.