Viðbótarframlag til mannúðaraðstoðar á Gaza

„Á ríkisstjórnarfundi í morgun tilkynnti ég um viðbótarframlög til mannúðaraðstoðar á Gaza í gegnum Alþjóðabankann og Rauða krossinn. Um rúmlega 80 m.kr. framlag er að ræða á ári, til viðbótar við þá verulegu fjármuni sem við höfum undanfarið veitt til svæðisins vegna þeirra hörmunga sem íbúar ganga nú í gegnum,“ sagði Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra á facebook-síðu sinni í gær í kjölfar ríkisstjórnarfundar.

Sagðist hann á sama fundi hafa rætt ásakanir í garð starfsfólks Palestínuflóttamannaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna um þáttöku í hryðjuverkunum 7. október.

„Fyrir helgi ákvað ég að ekki væri annað forsvaranlegt en að eiga samráð við stjórnendur stofnunarinnar og helstu samstarfsþjóðir okkar áður en frekari fjármunir yrðu greiddir út, en Ísland hefur undanfarið verið meðal hæstu framlagsríkja m.v. höfðatölu,“ sagði Bjarni.

Sagði hann að meðal annarra sem hafi tekið svipaða ákvörðun séu framkvæmdastjórn ESB, Bandaríkin, Bretland, Þýskaland, Ítalía, Ástralía, Finnland, Danmörk, Svíþjóð, Kanada, Holland, Eistland, Lettland, Litháen, Japan, Austurríki og Rúmenía.

„Í ákvörðuninni felst ekki að við hættum öllum stuðningi við stofnunina, eða svæðið, líkt og sumir hafa reynt að halda fram. Þvert á móti; Við þurfum einfaldlega að vera sátt við viðbrögð stofnunarinnar og hafa vissu, í samráði við Norðurlönd og aðrar samstarfsþjóðir, um að peningarnir renni þangað sem þeim er ætlað og ekkert annað. Ef svo verður, þá aftrar því ekkert að Ísland greiði kjarnaframlag sitt til stofnunarinnar innan þess tímaramma sem til stóð, á fyrsta fjórðungi þessa árs,“ sagði hann.

Sjá nánar hér.