Minna fyrir meira

Hildur Björnsdóttir, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur:

Nýtt flokk­un­ar­kerfi sorp­hirðu var inn­leitt á síðastliðnu ári og hef­ur sorp­hirða í Reykja­vík gengið brös­ug­lega í kjöl­farið. Sorp­hirða hef­ur víða verið fleiri vik­um á eft­ir áætl­un og los­un grennd­argáma verið illa sinnt.

Á borg­ar­stjórn­ar­fundi síðastliðinn þriðju­dag lagði Sjálf­stæðis­flokk­ur til að ráðist yrði í rekstr­ar­út­boð sorp­hirðu í Reykja­vík. Það er ástæðulaust fyr­ir hið op­in­bera að standa í rekstri sem einkaaðilar geta sinnt bæði bet­ur og hag­kvæm­ar – líkt og dæm­in hafa sýnt allt um kring.

Sorp­hirða er boðin út í öll­um ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um og hef­ur inn­leiðing nýs kerf­is gengið tölu­vert bet­ur á öllu höfuðborg­ar­svæðinu utan Reykja­vík­ur. Jafn­framt hef­ur komið í ljós að gjald­skrár sorp­hirðu eru tölu­vert hag­stæðari fyr­ir íbúa í ná­granna­sveit­ar­fé­lög­um en í Reykja­vík þar sem sorp­hirðugjöld eru lang­hæst.

Þetta birt­ist glöggt af sam­an­b­urði milli sveit­ar­fé­laga. Þannig er gjald fyr­ir þrjár 240 lítra flokk­un­ar­tunn­ur auk gjalds fyr­ir rekst­ur grennd­ar- og end­ur­vinnslu­stöðva sam­tals 90.500 kr. fyr­ir sér­býli í Reykja­vík. Gjald fyr­ir sömu þjón­ustu er 62.500 kr. í Kópa­vogi, 68.798 í Hafnar­f­irði og 72.190 í Garðabæ. Gjald fyr­ir sorp­hirðu við sér­býli er því um 45% hærra í Reykja­vík en Kópa­vogi. Sé litið til fjöl­býla er gjald­skrá fyr­ir hverja los­un um 32% hærri í Reykja­vík en Kópa­vogi.

Þjón­ust­an er ekki aðeins dýr­ari í Reykja­vík, hún er jafn­framt óáreiðan­legri og stop­ulli. Fyr­ir of­an­ritað gjald fá íbú­ar Kópa­vogs­bæj­ar sorp­hirðu á tveggja vikna fresti en íbú­ar Reykja­vík­ur­borg­ar á aðeins þriggja vikna fresti. Und­anliðna mánuði hafa borg­ar­bú­ar raun­ar þurft að bíða í upp und­ir sex vik­ur eft­ir sjálf­sagðri tunnu­los­un við heim­ili sín.

Áreiðan­leg sorp­hirða er grund­vall­arþjón­usta við heim­il­in í borg­inni. Borg­ar­bú­ar eiga ekki annarra kosta völ en að greiða upp­gef­in sorp­hirðugjöld, jafn­vel þótt áætlan­ir um sorp­hirðu stand­ist ekki. Meiri­hluta­flokk­arn­ir gátu ekki fall­ist á til­lögu Sjálf­stæðis­flokks um af­slætti af sorp­hirðugjöld­um sem nema myndu þjón­ustu­fall­inu síðastliðna mánuði. Þau gátu ekki held­ur samþykkt til­lögu okk­ar um rekstr­ar­út­boð sorp­hirðu, en hafa þó samþykkt að rýna málið nán­ar á vett­vangi borg­ar­ráðs. Reykja­vík­ur­borg stenst illa sam­an­b­urð við ná­granna­sveit­ar­fé­lög hvað varðar sorp­hirðu, leik­skólaþjón­ustu, snjómokst­ur og áfram mætti telja. Þjón­ustukann­an­ir sýna ít­rekað að borg­ar­bú­ar eru óánægðari með þjón­ustu síns sveit­ar­fé­lags en íbú­ar ná­granna­sveit­ar­fé­laga.

Fólk sætt­ir sig ekki við þann veru­leika að fá sí­fellt minna fyr­ir meira. Verstu þjón­ust­una fyr­ir hæstu skatt­ana. Ekki síst þegar tæki­færi til bæði hagræðing­ar og þjón­ustu­úr­bóta eru alltumlykj­andi – þegar með smá­vægi­leg­um vilja og út­sjón­ar­semi mætti vel tryggja fólki meira fyr­ir minna.

Greinin birtist í Morgunblaðinu, 25. janúar 2024.