Tæknin tryggi öryggi

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Í kvik­mynd­um þar sem sögu­sviðið er geim­ur­inn er rauði þráður­inn yf­ir­leitt ógn. Ógn sem oft­ast er óþekkt, fram­andi ver­ur eða vél­menni sem hafa tekið eða eru lík­leg­ar til að taka yfir. Í raun­veru­leik­an­um er staðreynd­in sú að gervi­hnett­ir sem svífa um him­in­hvolfin geta orðið banda­menn okk­ar í ör­yggi og hluti af vörn­um Íslands.

Einn af veiga­mestu þátt­un­um í ör­ygg­is- og varn­ar­mál­um þjóðar­inn­ar snýr að ör­yggi fjar­skipta og fjar­skiptainnviða. Það er ekki vanþörf á enda eru fjölþátta ógn­ir, netárás­ir, fals­frétt­ir og aðrar aðgerðir al­var­leg og vax­andi ógn, ekki aðeins á Íslandi held­ur um heim all­an. Opin og lýðræðis­leg sam­fé­lög, þar sem sta­f­ræn þróun hef­ur verið hröð, eru sér­stak­lega viðkvæm fyr­ir slík­um árás­um.

Fjar­skiptasæ­streng­ir tengja Ísland við um­heim­inn. Talið er að rúss­nesk­ir kaf­bát­ar hafi nú þegar kort­lagt sæ­streng­ina okk­ar og áhyggj­ur fara vax­andi um það hvað ger­ist ef landið verður skyndi­lega sam­bands­laust við um­heim­inn.

Þess vegna hef ég lagt áherslu á að við bregðumst við þeirri ógn með því að nýta tækn­ina og gera hana að banda­manni. Tækn­in get­ur skapað okk­ur aukið ör­yggi. Fari svo að fjar­skiptasæ­streng­ir sem liggja til Íslands verði fyr­ir skaða er til búnaður sem get­ur tryggt fjar­skipta­sam­band okk­ar til skemmri tíma. Gervi­hnett­irn­ir hafa burði til að vera nokk­urs kon­ar vara-net­sam­band okk­ar við út­lönd, og um leið hér inn­an­lands komi til þess að sam­band um sæ­strengi rofni.

Í haust kynnti ég að mögu­leiki væri að taka þátt í áætl­un Evr­ópu um ör­yggis­kerfi um gervi­hnetti (Secure Conn­ecti­vity Programme), slíkt gæti tryggt aðgengi að hraðvirk­um, ör­ugg­um og hag­kvæm­um fjar­skipt­um um gervi­hnetti á heimsvísu. Nú hef­ur fram­kvæmda­stjórn Evr­ópu­sam­bands­ins samþykkt að hefja samn­ingaviðræður við Ísland um þátt­töku okk­ar í áætl­un­inni. Slíkt get­ur skipt höfuðmáli þegar kem­ur að því að tryggja ör­yggi okk­ar en get­ur líka stutt mik­il­væga fjar­skiptainnviði með því að tryggja aðgengi lög­gæslu og viðbragðsaðila að ör­ugg­um fjar­skipt­um á neyðar­stundu. Áformin fela jafn­framt í sér upp­bygg­ingu á kerfi sem einkaaðilar gætu nýtt til að bjóða hraðvirka netþjón­ustu, þ.m.t. á dreif­býl­um svæðum hér­lend­is og á há­lend­inu.

Tækn­in er og verður okk­ur mik­il­væg­ur bandamaður til að tryggja fjar­skipta­ör­yggi Íslands. Sem ráðherra þeirra mála­flokka sem snúa að þróun tölvu­tækni og fjar­skipta­ör­ygg­is legg ég ríka áherslu á að styðja sem best við fram­gang þeirra, sem eina af mik­il­væg­ustu stoðunum til að auka sam­keppn­is­hæfni og vel­sæld þjóðar­inn­ar til framtíðar – og tryggja um leið ör­yggi í víðum skiln­ingi.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 22. janúar 2024.