Frambjóðendur í miðstjórnarkjöri í Reykjavík

Miðstjórnarkjör á vegum Varðar, fulltrúaráðs Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík fer fram í Valhöll miðvikudaginn 24. janúar frá kl. 12-18 og fimmtudaginn 25. janúar frá kl. 10-16. Eftirtaldir eru í framboði:

Janus Arn Guðmundsson

Janus Arn Guðmundsson er stjórnmálafræðingur frá Háskóla Íslands. Hann hefur gengt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn, m.a. skipulagt og stýrt fjölda framboða, bæði prófkjörum og kosningum til sveitastjórna og Alþingis. Undanfarin tvö ár hefur hann  setið í stjórn Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík. Þá sat hann í miðstjórn flokksins frá árinu 2016 – 2018. Hann var jafnframt framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokks Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík kjörtímabilið 2018-2022.

Magnús Þór Gylfason

Kæru félagar!

Ég býð mig fram til áframhaldandi setu í miðstjórn þar sem ég hef setið fyrir Reykjavíkurkjördæmin undanfarin ár. Með því vil ég leggja fram krafta mína, reynslu og þekkingu fyrir Sjálfstæðisflokkinn og sjálfstæðisstefnuna sem mun nú sem fyrr varða veginn til bættra lífskjara, frelsis og framfara á Íslandi.

Ég legg áherslu á 1) að vera fulltrúi okkar allra sjálfstæðismanna í miðstjórn; 2) að við fylkjum okkar um hugsjónir sjálfstæðisstefnunnar og eflum liðsheildina; 3) að flokksstarfið okkar og skipulag sé á heimsmælikvarða til að styðja við frambjóðendur og félagsstarf; 4) að flokkurinn okkar breikki og stækki og laði að sér krafta og hæfileika víða að, ekki síst meðal ungs fólks; og síðast en ekki síst 5) að Sjálfstæðisflokkurinn styrki ímynd sína og endurheimti fyrri styrk og traust.

Aðeins um mig: Ég verð fimmtugur á árinu, fæddur Reykvíkingur, búsettur í Vesturbæ, fjögurra barna faðir og menntaður viðskiptafræðingur frá HÍ og HR með endurmenntun frá Harvard Business School og HR.

Ég starfa sem forstöðumaður samskipta hjá Kviku. Þar áður leiddi ég samskiptasvið Landsvirkjunar í 11 ár, var skrifstofustjóri borgarstjóra og síðar aðstoðarmaður borgarstjóra í tæp 4 ár, framkvæmdastjóri samskipta álversins í Straumsvík og starfsmaður Valhallar í rúm 6 ár, 2000-2006, fyrst sem framkvæmdastjóri SUS og síðar framkvæmdastjóri borgarstjórnarflokksins.

Nánar um mig:

https://www.linkedin.com/in/magnus-thor-gylfason/

Elsa Björk Valsdóttir

Ég starfa sem skurðlæknir á Landspítala og lektor við Læknadeild HÍ. Ég hef tekið þátt í starfi Sjálfstæðisflokksins undanfarin þrjátíu ár á hinum ýmsu vettvöngum. Þar á meðal hef ég notið trausts sjálfstæðisfólks í Reykjavík til setu í miðstjórn undanfarin ár. Í miðstjórn er oft hröð endurnýjun þar sem stór hluti hennar er skipaður fólki sem gegnir tilteknum embættum, oft aðeins í tvö ár. Ég tel mjög mikilvægt að til mótvægis veljist inn fólk með reynslu, sem þekkir innra starfið, sögu flokksins og skipulagsreglur hans vel og geti þannig tryggt samfellu og jafnræði í starfi miðstjórnar. Ég er tilbúin til að bjóða fram krafta mína áfram og leggja mitt af mörkum til að standa vörð um sjálfstæðisstefnuna og það miklvæga starf sem unnið er af hinum fjölmörgu félögum innan flokksins.

Steinar Ingi Kolbeins

Steinar Ingi Kolbeins er 26 ára gamall íbúi í Grafarvogi. Hann hefur gengt fjölda trúnaðarstarfa fyrir Sjálfstæðisflokkinn á undanförnum árum, m.a. skipulagt og stýrt framboðum, bæði prófkjörum og Alþingiskosningum. Hann hefur verið virkur þátttakandi í starfi ungra sjálfstæðismanna frá árinu 2015. Hann sat í stjórn Heimdallar á árunum 2015-2018 og hefur frá árinu 2021 verið 1. varaformaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna. Steinar Ingi starfar sem aðstoðarmaður umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra.