Ríkisstjórnin mun standa með Grindvíkingum

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir varaformaður Sjálfstæðisflokksins og fjármála- og efnahagsráðherra sagði í kvöldfréttum Stöðvar 2 miðvikudagskvöldið 17. janúar (sjá hér) að staðan í Grindavík kalli á stórar ákvarðanir og að sameiginlegir sjóðir séu til þess að nýta í slíkum aðstæður. En hún segir verkefnið þó flókið. Staðan kalli á sérlög.

„Við höfum fundað í dag og auðvitað undanfarna daga og það hefur orðið algjör eðlisbreyting á verkefninu undanfarna örfáa sólarhringa. Ríkisstjórnin meinar það þegar hún segir að við ætlum að standa með Grindvíkingum,“ sagði Þórdís Kolbrún.

Hún benti á að við byggðum upp sameiginlega sjóði í þessu samfélagi til þess að geta brugðist við áföllum.

„Ef sameiginlegir sjóðir eru ekki nýttir við þessar aðstæður þá veit ég ekki af hverju við erum að byggja upp sameiginlega sjóði,“ sagði hún.

Það sem gert verði þurfi að vera sanngjarnt og skynsamlegt. En það taki tíma og að það sé nú unnið hörðum höndum að lausnum.

„Og ég heyrði mjög vel hvað Grindvíkingar sögðu í gær [á þriðjudagskvöld]. Verkefnið hefur breyst og nú kallar það á stórar ákvarðanir til lengri tíma en ekki skammtímaúrræði til skemmri tíma eins og við vorum að vona að myndu duga,“ sagði ráðherra.

Svör verði veitt hratt og örugglega

Hún segir að það hafi verið unnið eftir því að þessi staða gæti komið upp. Annað hvort að það myndi fara hraun yfir bæinn eða að ekki yrði hægt að búa þar.

„En eins og ég segi þá hefur þessi eðlisbreyting orðið á verkefninu á bara örfáum sólarhringum og nú blasir við ný staða,“ sagði hún og að það blasi við að ekki verði búið í Grindavík á næstunni. Það kalli á stærri ákvarðanir og sé sameiginlegt verkefni.

„Við erum auðvitað með ríkissjóð, við erum með aðra sjóði. Fjármálastofnanir eru þarna með lán og svo framvegis. Það kallar á samstarf og samtal og þarna þarf að finna leiðir, sem eru þá bæði sanngjarnar og skynsamlegar. Stærðargráðan er þarna en eins og ég segi, við erum með sameiginlega sjóði til að mæta fólki í áföllum og þetta uppfyllir sannarlega þau skilyrði,“ sagði Þórdís kolbrún.

Aðspurð að því hvort húsin verði keypt af ríkinu sagði hún að þessi vinna sé í fullum gangi og að hún viti að fólkið bíði eftir svörum og að þau verði veitt hratt og örugglega.

„En ég veit líka að orð mín vega þungt, sérstaklega þegar fólk kallar eftir svörum til að fá vissu í sitt líf. Við erum að vinna að því að eyða þessari óvissu og það mun skýrast mjög mjög fljótlega,“ sagði hún.

Sérlög nauðsynleg

„Þetta kallar klárlega á sérlög og nálgun sem auðvitað þarf að vinnast líka í samstarfi og samvinnu við þingið og fara í gegnum sínar nefndir og Alþingi sem er með fjárveitingarvald. Þetta er sameiginlegt verkefni og ég veit að það er þverpólitískur stuðningur við að gera það sem er rétt, það sem er sanngjarnt og það sem er skynsamlegt,“ segir hún.

Spurð að því hvort horft verði til fordæma eins og Viðlagasjóðs sem kom til í kjölfar Heimaeyjargossins segir hún að Náttúruhamfaratrygging sé í raun og veru afleiðing af því og svo sé ofanflóðavarnasjóður. En við séum þó í fordæmalausri stöðu. Aldrei fyrr hafi þjóðin staðið frammi fyrir þeim aðstæðum sem eru í Grindavík. Það kalli á nýja nálgun og að verið sé að vinna að málum á fullu.