Þakklætiskröfur gerðar til Reykvíkinga

Ragnhildur Alda M. Vilhjálmsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík:

Und­an­far­in miss­eri hafa af­leiðing­ar óstjórn­ar­inn­ar í ráðhús­inu hellst yfir íbúa. Gjöld hækka og hækka á sama tíma og þjón­ust­an sem íbú­ar eru að greiða fyr­ir ým­ist stend­ur í stað eða hrein­lega minnk­ar. Að stytta þjón­ustu­tíma sund­lauga með ein­um eða öðrum hætti er orðið ár­legt nauðráð hjá meiri­hlut­an­um í borg­ar­stjórn á sama tíma og sund­ferðin held­ur áfram að vera dýr­ust í Reykja­vík. En fólk á reynd­ar að vera þakk­látt fyr­ir að kom­ast í sund yf­ir­leitt.

Eina ferðina enn var rusl ekki hirt hjá íbú­um og í borg­ar­land­inu svo vik­um skipti. Núna var það vegna bil­ana í bíl­um, síðast vegna inn­leiðing­ar á nýju flokk­un­ar­kerfi og þar á und­an var ófyr­ir­séð or­lofstaka starfs­manna ástæðan. Alltaf eru sam­hliða þess­um af­sök­un­um helstu viðbrögð Sorpu að skamma íbúa og kenna þeim um með ýms­um hætti. Loks­ins þegar starfs­menn Sorpu mættu til að hirða ruslið fengu þeir íbú­ar sem ekki leystu sorp­hirðuvand­ann sjálf­ir skamm­armiða um að yf­ir­full­ar tunn­ur yrðu ekki tæmd­ar, svo mest er skilið eft­ir. Íbúum er þannig refsað fyr­ir hirðuleysi Sorpu með áfram­hald­andi hirðuleysi af hendi Sorpu. Þegar íbú­ar kvarta yfir því að vera neydd­ir til að borga fyr­ir þjón­ustu sem er ekki veitt og þeir sjálf­ir látn­ir sinna fá þeir aft­ur skamm­ir fyr­ir að sætta sig ekki við þetta. Íbúar eiga líka að sætta sig við að nú sé önn­ur eða þriðja hækk­un­in á sorp­hirðugjöld­um á leiðinni og gjöra svo vel að sækja pok­ana sem þeim er gert að nota und­ir líf­rænt rusl sjálf­ir á end­ur­vinnslu­stöð í stað þess að grípa þá með sér úr næstu mat­vöru­versl­un. Að sögn Sorpu geta íbú­ar bara sjálf­um sér um kennt, því ein­hverj­ir tóku árs­birgðir af papp­ír­s­pok­um. Nú eru enn fjöl­marg­ir sem flokka ým­ist lítið eða ekk­ert líf­rænt rusl og taka sér því enga pappa­poka, sömu­leiðis eru marg­ar íbúðir í út­leigu til ferðamanna sem eru ekki að grípa sér papp­ír­s­poka. En hvernig væri að þakka meiri­hlut­an­um fyr­ir metnað sinn í að flokka sorp?

Fólk vissi varla hvaðan á sig stóð veðrið þegar loks sást tím­an­lega til snjómokst­urs­bíla fyr­ir jól, þótt marg­ar göt­ur hafi gleymst þrátt fyr­ir splunku­nýja vetr­aráætl­un. Snjóþyngsl­in voru mun minni en áður og klak­inn því fljót­ur að fara þegar hlýnaði aft­ur sem leiddi í ljós göt­ur og gang­stétt­ir þakt­ar sandi auk flug­eld­arusls og heim­il­isúr­gangs sem fauk úr yf­ir­full­um tunn­um. Nú sást jafn­vel einn og einn bíll sópa eina og eina gang­stétt, þá sömu og einn og einn bíll sást moka og sanda einu sinni um hátíðarn­ar. Reynd­ar voru gang­stíg­ar sjaldn­ast mokaðir eða sandaðir báðum meg­in við götu þegar þeim var þá sinnt, bara öðrum meg­in. Í ljósi þess að borg­in rak­ar inn hundruðum millj­óna auka­lega með ár­legri stækk­un gjaldsvæða og tug­pró­senta hækk­un bíla­stæðagjalda ættu íbú­ar að fá langt­um betri þjón­ustu á göt­um og gang­stétt­um hvort sem er í viðhaldi, mokstri eða þrif­um, enda eru bíla­stæðagjöld ekki leng­ur eyrna­merkt viðhaldi eða gerð bíla­stæða held­ur renna þau beint til um­hverf­is- og skipu­lags­sviðs. En þegar íbú­ar voru fúl­ir yfir því að greiða meira fyr­ir ekk­ert var svarið frá borg­inni og meiri­hluta Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Pírata, Viðreisn­ar og nú Fram­sókn­ar að íbú­ar ættu að byrja á því að skamm­ast sín fyr­ir að þurfa bíl, og þess vegna væri rétt­læt­an­legt að rukka fólk tví­veg­is, fyrst með út­svar­inu og svo með bíla­stæðagjöld­um, fyr­ir þá ósvífni að þurfa pláss í borg­ar­land­inu. Íbúar mega þakka fyr­ir að fá að eiga bíl og eiga ekki að vera með ein­hverja til­ætl­un­ar­semi.

Síðast en ekki síst eiga þeir á annað þúsund for­eldr­ar sem fá hvorki leik­skóla­pláss né pláss hjá dag­for­eldri að skamm­ast sín fyr­ir að vera ekki þakk­lát­ari borg­ar­stjórn­ar­meiri­hlut­an­um. Núna, mörg­um mánuðum eft­ir að meiri­hlut­inn samþykkti til­lög­una og stærði sig af henni, á loks að byrja að niður­greiða vist­un­ar­gjöld barna sem eru föst hjá dag­for­eldr­um en ættu að vera hálfnuð með leik­skóla­göngu sína, svo gjöld­in séu til jafns við leik­skóla­gjöld. Aft­ur á móti dett­ur meiri­hlut­an­um ekki í hug að fara að bæta for­eldr­um þeirra barna sem fá enga vist­un upp tekjum­issinn. Ef borg­ar­stjórn­ar­meiri­hluti Sam­fylk­ing­ar­inn­ar, Pírata, Viðreisn­ar og nú Fram­sókn­ar ætlaði raun­veru­lega að veita öll­um börn­um 18 mánaða og eldri leik­skóla­pláss hefðu þau áætlað fjár­magn í verk­efnið og getað stutt við alla for­eldra, líka þeirra barna sem fá enga vist­un. Greini­lega stóð aldrei til að efna lof­orð um leik­skóla­pláss frá 18 mánaða aldri en sem fyrr eiga íbú­ar bara að þegja, skamm­ast sín, borga sí­fellt hærra út­svar og gjöld og vera þakk­lát­ir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2023.