Með hríðskotabyssu í fanginu

Ásmundur Friðriksson alþingismaður:

Það eru nokk­ur ár frá því að Rík­is­út­varpið og aðrir fjöl­miðlar á vinstri vængn­um „slaufuðu“ mér vegna umræðu um hæl­is­leit­end­ur. Það gerðu auðvitað fleiri og er ég enn minnt­ur á yf­ir­lýs­ing­ar sumra flokks­fé­laga minna af sama til­efni. Þetta gerðist í kjöl­far varnaðarorða minna um óhefta fjölg­un hæl­is­leit­enda í land­inu. Þrátt fyr­ir það var fjöldi þeirra á þeim tíma lík­lega um þriðjung­ur þess sem síðar varð. Hann er löngu orðinn óviðráðan­leg­ur fyr­ir lítið sam­fé­lag á Íslandi. Á þeim tíma kallaði ég eft­ir því að bak­grunns­skoðun færi fram á þeim sem hingað kæmu og að við gætt­um ýtr­ustu varna við landa­mæri lands­ins.

Það var og er vitað að til lands­ins streyma skipu­lagðir hóp­ar und­ir merkj­um hæl­is­leit­enda til að stunda hér man­sal og aðra skipu­lagða brot­a­starf­semi. Þrátt fyr­ir viðleitni til að efla landa­mæra­eft­ir­lit og lög­gæslu dug­ar það hvergi nærri til. Lög­regl­an er hundelt í störf­um sín­um þegar koma á fólki úr landi sem hef­ur fengið synj­un á hæl­is­um­sókn á öll­um stig­um, jafn­vel fyr­ir dóm­stól­um. Þar ganga fremst­ir í fylk­ingu vinst­ris­innaðir fjöl­miðlar, pírat­ar allra flokka og öfga­menn á vinstri vængn­um.

Hverra hags­muna er verið að gæta?

Ný­lega bár­ust frétt­ir frá Dan­mörku um að grun­ur væri uppi um und­ir­bún­ing hryðju­verka þar í landi sem tengd­ust Ham­as-hryðju­verka­sam­tök­un­um. Dóms­málaráðherra Dan­merk­ur, Peter Hum­melga­ard, seg­ir hin meintu tengsl ein­stak­linga, sem danska lög­regl­an hand­tók ný­lega, við Ham­as staðfesta al­var­lega hryðju­verka­ógn gagn­vart Dan­mörku. Af þess­um ástæðum er hryðju­verka­ógn met­in al­var­leg í Dan­mörku.

Við Alþingi Íslend­inga hafa Palestínu­menn komið sér fyr­ir í tjald­búðum. Vegna mynd­birt­inga þeirra sjálfra og ís­lenskra stuðnings­manna er auðvelt að fletta upp viðkom­andi ein­stak­ling­um á sam­fé­lags­miðlum. Við þá yf­ir­ferð dúkk­ar ým­is­legt upp sem vek­ur mik­inn óhug, m.a. af­drátt­ar­laus stuðning­ur við Ham­as-hryðju­verka­sam­tök­in, mynd­ir af svo­kölluðum píslar­vott­um, viðkom­andi með hríðskota­vopn í fang­inu. Þar að auki ýmis óhugn­an­leg­ur stríðsboðskap­ur og hat­ursorðræða. Þetta er sem sagt að finna í hópi tjald­bú­anna sem studd­ir eru af þing­mönn­um Pírata, pír­öt­un­um í Viðreisn og Sam­fylk­ing­unni. Sömu þing­menn berj­ast gegn aukn­um vald­heim­ild­um og rann­sókn­ar­heim­ild­um lög­regl­unn­ar. Þá erum við að tala um að taka upp sömu vald­heim­ild­ir lög­reglu og önn­ur nor­ræn lönd búa við. Ekk­ert um­fram það.

Er það mögu­lega svo að þess­ir þing­menn vilji ekki gera allt sem í valdi Alþing­is stend­ur til að koma í veg fyr­ir skipu­lagða glæp­a­starf­semi og man­sal í land­inu? Hverra hags­muna eru þeir að gæta?

Slaufa ein­stak­ling­um

Þetta er fólkið sem er í liði með Reykja­vík­ur­borg sem skýt­ur skjóls­húsi yfir og send­ir ein­kenni­leg skila­boð til þjóðar­inn­ar um van­v­irðingu við Aust­ur­völl og ná­grenni hans. Aust­ur­völl sem geym­ir stytt­una af Jóni for­seta, Dóm­kirkj­una og Alþing­is­húsið. Hér má ekki gleyma þætti vinst­ris­innaðra fjöl­miðla sem flytja dag­leg­ar frétt­ir úr búðunum á Aust­ur­velli, en birta ekki upp­lýs­ing­ar um ein­stak­linga sem þar halda til. Er þeim þó í lófa lagið að afla sér slíkra upp­lýs­inga.

Rík­is­út­varpið og aðrir vinst­ris­innaðir fjöl­miðlar stjórna umræðunni í land­inu. Meðal ann­ars með því að slaufa ein­stak­ling­um sem ekki eru í náðinni en hafa frá upp­hafi kallað eft­ir vandaðri vinnu­brögðum og var­kárni í út­lend­inga­mál­um. Á dög­un­um var hæl­is­leit­anda, sem er tal­inn vera liðsmaður ÍSIS, vísað úr landi. Ábyrgð fjöl­miðla er mik­il nú þegar raun­veru­leik­inn kem­ur aft­an að okk­ur. Von­andi líta þeir til ná­granna­landa okk­ar og láta af þögg­un og ófræg­ing­ar­her­ferðum í garð þeirra sem er sann­ar­lega annt um ís­lenskt sam­fé­lag. Von­andi er það ekki um sein­an.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 16. janúar 2024.