Öflugur háskóli á landsbyggðinni

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra:

Mennta­kerfið á Íslandi þarf að taka breyt­ing­um. Ég hef áður bent á að í alþjóðleg­um sam­an­b­urði stönd­um við ekki vel og ár­ang­ur­inn læt­ur á sér standa. Það má þó ekki horfa fram­hjá því að margt er vel gert, við eig­um öfl­uga kenn­ara, metnaðarfulla nem­end­ur og rann­sókn­ir og frum­kvöðla á heims­mæli­kv­arða.

Sam­keppn­is­hæfni okk­ar sem þjóðar skipt­ir öllu máli til að tryggja lífs­kjör lands­manna og framtíðarkyn­slóða. Há­skóla­stigið er þar mik­il­væg­ur hlekk­ur, skól­arn­ir eru of marg­ir miðað við fjölda íbúa. Við þurf­um að sam­eina krafta, styrk­leika og sér­fræðiþekk­ingu há­skóla, þannig verða þeir sterk­ari og sam­keppn­is­hæf­ari.

Sam­starf há­skóla setti ég af stað fyr­ir rúmu ári til að hvetja til nán­ara sam­starfs milli há­skóla. Verk­efnið hef­ur þegar skilað ár­angri og hef­ur t.d. leitt af sér mögu­leika til að mæta áskor­un­um í heil­brigðis­kerf­inu með fjölg­un heil­brigðis­menntaðra, styrk­ingu á tækni- og raun­vís­inda­námi og auknu fjar­námi. Ég hef horft til þess að aukið sam­starf skóla leiði til þess að þeir eigi frum­kvæði að þeim sam­ein­ing­um sem mest styrkja há­skóla­stigið.

Það er fagnaðarefni að há­skólaráð Há­skól­ans á Ak­ur­eyri og stjórn Há­skól­ans á Bif­röst hafa ákveðið að ganga til sam­ein­ing­ar­viðræðna. Það kem­ur til í fram­haldi af öfl­ugu sam­starfi há­skól­anna og grein­ing­ar sem var afar vel unn­in.

Með sam­ein­ing­unni get­ur orðið til enn öfl­ugri há­skóli á lands­byggðinni sem tek­ur af­ger­andi for­ystu í fjar­námi og þjón­ustu við nem­end­ur um land allt sem kalla eft­ir sveigj­an­leg­um námsaðferðum eins og þess­ir tveir skól­ar hafa verið leiðandi í. Kröft­ug­ur sam­einaður há­skóli á Ak­ur­eyri mun styrkja lands­byggðina í heild og fjölga tæki­fær­um til náms utan höfuðborg­ar­svæðis­ins, ekki síst í gegn­um aukna mögu­leika á fjöl­breyttu fjar­námi.

Það er rík ástæða fyr­ir því að ég hef lagt á þetta áherslu. Há­skólastarf og hærra mennt­un­arstig hef­ur já­kvæð áhrif á sam­fé­lagið, bæði efna­hags­leg og sam­fé­lags­leg. Það eyk­ur fjöl­breytni at­vinnu­lífs, efl­ir ný­sköp­un sem laðar að fleira fólk og eyk­ur verðmæta­sköp­un. Þannig verða lífs­gæðin meiri og mann­lífið skemmti­legra.

Aðgang­ur að mennt­un á lands­byggðinni fjölg­ar há­skóla­nem­um og þeir nem­end­ur eru lík­legri til að búa áfram í sinni heima­byggð.

Mark­mið sam­ein­ing­ar er hvorki niður­skurður né fækk­un náms­brauta held­ur er ætl­un­in þvert á móti að blása til sókn­ar og styrkja lands­byggðina, ís­lenskt fræðasam­fé­lag og þjóðfé­lagið í heild sinni. Há­skól­inn á Ak­ur­eyri og Há­skól­inn á Bif­röst hafa báðir sína sér­stöðu, sérþekk­ingu, menn­ingu og sögu sem mun verða mik­il­vægt fram­lag inn í sam­eig­in­leg­an há­skóla. Á sama tíma deila skól­arn­ir sömu framtíðar­sýn og metnaði til að vera öfl­ug­ur há­skóli fyr­ir landið allt í fremstu röð.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 12. janúar 2024.