Aukið samstarf og möguleg sameining

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar,- og nýsköðunarráðherra fagnar því að háskólaráð Háskólans á Akureyri og stjórn Háskólans á Bifröst hafi ákveðið að ganga til samningaviðræðna um aukið samstarf og mögulega sameiningu í kjölfar fýsileikagreiningar. Með sameiningu þessarar tveggja skóla geti orðið til háskóli sem taki afgerandi forystu í fjarnámi og þjónustu við nemendur um land allt sem kalli eftir sveigjanlegum námsaðferðum. „Skólarnir hafa jafnframt hug á að efla rannsóknarhlutverk sitt og ég mun leggja mig fram um að hugmyndir þeirra um öflugan rannsóknarsjóð nýs skóla geti orðið að veruleika.“

Í fýsileikagreiningunni er það niðurstaðan að skólarnir deili sömu framtíðarsýn og metnaði til að vera háskóli fyrir landið allt og bjóða upp á fjölbreyttar og sveigjanlegar leiðir til náms. Áslaug segir að sameining háskólanna skapi tækifæri til að efla sérstaklega þær þrjár deildir sem eru í báðum skólum, saman geti stoðdeildir skólanna orðið sterkari og samfélag akademísks starfsfólks og nemenda orðið ríkara. Skólarnir undirstrika að markmið sameiningar sé hvorki niðurskurður né fækkun námsbrauta heldur þvert á móti sé ætlunin að blása til sóknar og styrkja landsbyggðina, íslenskt fræðasamfélag og þjóðfélagið í heild sinni.

„Ég hef sagt það áður að einn af veikleikum háskólastigsins hér á landi sé sá að háskólarnir eru of margir miðað við fjölda íbúa. Því setti ég af stað verkefnið Samstarf háskóla þar sem sérstöku fjármagni er úthlutað til verkefna sem unnin eru sameiginlega af tveimur eða fleiri háskólum. Verkefnið hefur skilað miklum árangri og það hefur t.d. leitt af sér nýjar námsleiðir og meira fjarnám. Ég hef vonast til að aukið samstarf skóla leiði til þess að þeir eigi frumkvæði að þeim sameiningum sem mest styrkja háskólastigið og að mínu mati er hugsanleg sameining Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst mikilvægur áfangi á þeirri leið. Fýsileikagreining þeirra var afar vel unnin og öllum sem að henni komu til sóma.