Áramótakveðja

Ég átti mér draum, og draumurinn er þar enn

Fyrir tíu árum skrifaði ég grein um minn draum og vitnaði í magnaða ræðu Martin Luther King „I say to you today, my friends, that in spite of the difficulties and frustration of the moment, I still have a dream….“

Ég á mér enn þann draum að við Íslendingar förum að horfa á lausnir en ekki vandamál, draum um að við horfum á tækifæri en ekki erfiðleika og draum um að við horfum á það jákvæða í lífinu en ekki inn í dimman dal.

Það eru miklar áskoranir á heimvísu, á Íslandi, á Suðurnesjum. Það eru stríð á mörgum stöðum í heiminum þótt við Íslendingar látum eins og það sé einungis á tveimur stöðum. Okkur hefur tekist að skapa ágreining um annað stríðið, meira að segja þannig að fólk skiptist í fylkingar um hvorum aðilanum í stríðinu það heldur með eins og um knattspyrnuleik sé að ræða. Við ættum að geta rætt um svona mikilvæg málefni án þess að við séum að dæma harkalega þannig að hinn almenni borgari segir blákalt að hann hvorki þori né vilji blanda sér í umræðuna.

Fólk á að fá að hafa pólitískar skoðanir án þess að það sé hreinlega talið Guðlast að voga sér að segja upphátt að það t.d. kjósi ákveðinn stjórnmálaflokk, eða taki undir málstað ákveðinna einstaklinga. Með þessu er lýðræðinu hreinlega ógnað.

Samstaðan sem raungerðist þegar vinir okkar úr Grindavík þurftu að yfirgefa heimili sín, heldur vonandi áfram. Varnarveggur var reistur til verndar orkuverinu í Svartsengi til þess að minnka líkur á að ekki bara Grindvíkingar heldur allir á Suðurnesjum, yrðu að yfirgefa heimili sín. Þessi varnargarður var þó ekki reistur án átaka. Kannski er komið upp nýtt ágreiningsmál sem heldur áfram þegar reisa á t.d. snjóvarnargarða um landið, þ.e. hvaða fyrirtæki eigi að borga fyrir garðana.

Hvernig væri að við förum að hugsa og ræða saman á jákvæðan og uppbyggilegan hátt og hætta að nálgast menn og málefni með reiði og neikvæðni. Miklar áskoranir eru framundan og er mikilvægt að nálgast þær lausnarmiðað og með bjartsýni að leiðarljósi.

Við höfum alltaf val um vera í ljósinu eða myrkrinu. Ég vil lifa í ljósinu, en þarf eins og allir að minna mig á það, og tel ég það vera gott veganesti inn í nýtt ár.

Gleðilegt ár

Margrét Sanders

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjanesbæ