Áramótakveðja

Árið 2023 hefur liðið hratt enda mikið um að vera í Bolungarvík. Víkin heldur áfram að blómstra. Sá uppgangur sem er hér í samfélaginu byggist á þeim trausta grunni sem við höfum unnið að og styrkt undanfarin ár og enn horfum við áfram veginn með bjartsýni og stolti.

Lífæðin okkar er höfnin þar sem miklar framkvæmdir hafa verið í ár. Hafnarsvæðið hefur verið stækkað og sjáum við fram á enn frekari stækkun. Laxasláturhús Arctic Fish sem fékk nafnið Drimla er komið af stað þar sem framleiðslugetan er 25-50.000 tonn á ári. Fiskmarkaður Vestfjarða er að byggja nýtt hús ásamt því sem fiskvinnslan Jakob Valgeir hefur stækkað við atvinnuhúsnæði sitt í þeim tilgangi að auka afkastagetu.

Áframhald er á framkvæmdum við vatnsveitu Bolungarvíkur sem er stærsta innviðafjárfesting bæjarins um þessar mundir. Fjárfesting sem þessi styrkir innviði bæjarins og atvinnulífið til muna.

Bolvíkingar náðu 1000 íbúa markinu sem er mjög gleðilegt. Lóðir í nýju íbúðahverfi, Lundahverfi, voru lausar til úthlutunar og voru umsóknir með besta móti.

Ungt fólk er að koma aftur heim eftir nám og taka virkan þátt í uppbyggingu atvinnulífs og samfélagsins sem er sérstaklega gleðilegt. Í fyrsta sinn í fjölmörg ár erum við Bolvíkingar með starfrækta tannlæknastofu sem Vestfirðingar allir nýta sér.

Við horfum bjartsýn til framtíðar en betur má ef duga skal. Í uppbyggingu líkt og þeirri sem verið hefur í Bolungarvík undanfarin ár þá þarf áræðni og kjark til þess að stíga skrefið til fulls og færa samfélagið sem hér er á næsta stig.

Hátíðarkveðjur úr Víkinni fögru,

Guðbjörg Stefanía Hafþórsdóttir

Oddviti Sjálfstæðismanna og óháðra í Bolungarvík