Áramótakveðja

Gefumst ekki upp gagnvart betri Fjarðabyggð

Í síðasta áramótaávarpi mínu þakkaði ég góðan árangur í síðustu sveitarstjórnarkosningum skýrri sýn Sjálfstæðisflokksins. Þar töluðum við fyrir breytingum og nauðsyn þess að horfa inn á við og hefja endurskipulagningu á rekstri sveitarfélagsins. Undir yfirskriftinni „Betri Fjarðabyggð“ fundum við fyrir góðum hljómgrunn, samstöðu og metnaði íbúa fyrir framförum og framtíðinni. Markmið okkar var að endurheimta styrk Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð sem leiðandi afls. Niðurstaða kosninganna var sú að Sjálfstæðisflokkurinn var óumdeilanlegur sigurvegari kosninganna.

Það að vinstri öflin í Fjarðabyggð hafi kosið að hunsa skýrt ákall um breytingar dregur ekki úr ábyrgð okkar gagnvart því trausti sem okkur var sýnt. Skylda okkar er að berjast fyrir breytingum með öflugu aðhaldi. Það höfum við gert og munum gera áfram með skýru ákalli að leiðarljósi.

Á þessu ári höfum við haldið áfram virku beinu samtali við kjósendur í öllum byggðakjörnum. Við höfum haldið reglulega opna íbúafundi, bæjarmálafundi, fjölskylduhátíð og opna viðtalstíma bæjarfulltrúa. Styrkur okkar felst í skýru umboði kjósenda og virkt samtal heldur okkur við efnið. Virku félagsstarfi og aðhaldi að kjörnum fulltrúum er viðhaldið af vaskri sveit félagsmanna sem halda úti kröftugri starfsemi innan flokksins.

Eins og á undanförnum árum höfum við bent á mikilvægi þess að tryggja sjálfbæran rekstur sveitarfélagsins en engu að síður fjarlægist sveitarfélagið stöðugt öll fjárhagsleg viðmið sem tryggja stöðugleika og framþróun. Viðhaldsmálum er ábótavant og sá vandi vex stöðugt, reksturinn er of umfangsmikill og við náum ekki endum saman. Svo einfalt er það og hefur verið með þeim hætti undanfarin ár. Úrræðaleysið er algjört og í miðjum ólgusjó þegar mál sem krefjast aðkallandi úrlausna, svo sem starfsmanna- og viðhaldsmála, kaus oddviti Framsóknarflokksins, öllum að óvörum,  að segja af sér sem bæjarstjóri. Sú ákvörðun að hætta var alfarið hans og meirihlutans, ekki annarra. Ósanngjarnt var að kenna öðrum um.

Einsýnt er að við þurfum stöðugleika, frið, lausnarmiðað samtal og breytingar. Þriðji bæjarstjórinn á tæpum fimm árum talar sínu máli. Sjálfstæðisflokkurinn mun ekki þvælast fyrir í úrlausn þeirra erfiðu mála sem við stöndum frammi fyrir en fulltrúar meirihluta Framsóknarflokks og Fjarðarlistans verða að stíga fram og taka pólitíska ábyrgð til að forðast enn tíðari bæjarstjóraskipti.

Kæru félagar ég óska ykkur öllum gleðilegs nýs árs og þakka fyrir afar góð kynni og samskipti á árinu sem er að líða. Sjálfstæðisflokkurinn mætir fullur tilhlökkunar inn í nýtt ár og hlakkar til áframhaldandi samvinnu við kjósendur.

Megi nýtt ár verða okkur gjöfult og farsælt.

Með vinsemd og virðingu,

Ragnar Sigurðsson

Oddviti Sjálfstæðisflokksins í Fjarðabyggð