Áramótakveðja

Kæru vinir og félagar,

Nú stytttist enn og ný í áramót. Var árið 2023 afar gott hjá okkur í Snæfellsbæ. Ætla ég að fara í stuttu máli yfir það helsta hjá okkur á árinu.

Töluvert var um framkvæmdir og var áfram lögð áhersla á viðhald á eignum sveitafélagsins. Skipt var um glugga og þak endurnýjað í grunnskólann á Hellissandi, einnig var skipt um glugga á leikskólunum. Á Gufuskálum var skipt um þak á hluta af eignum bæjarins. Farið var af stað með stækkun á skólanum á Lýsuhóli sem haldið verður áfram með á nýju ári. Þá erum við stolt af nýju glæsilegu húsi sem hýsir félagsmiðstöð eldri borgara en það var klárað að utan sem innan og verður afhent með viðhöfn í byrjun árs 2024. Þessi nýja aðstaða eldri borgara verður væntanlega mikil breyting til batnaðar, þar sem öll starfssemi félagsins kemst fyrir á einum stað. Ný og glæsileg rennibraut var sett upp í sundlauginni í Ólafsvík. Þá var malbikað fyrir um 130 milljónir síðastliðið sumar.

Hafnarsjóður stóð í miklum framkvæmdum þar sem lokið var við nýtt stálþil við Norðurtanga í Ólafsvík og endurbætur og stækkun við trébryggjuna þar. Framhald var á stækkun og endurbótum hafnarhússins í Ólafsvík sem áætlanir gera ráð fyrir að klárist á næsta ári. Dýpkun var gerð á innsiglingunni á Rifi. Byggðir voru þrír sjóvarnargarðar við Ólafsbraut og Ennisbraut í Ólafsvík og á Hellnum. Hafnarsjóður er fjárhagslega vel stæður og skuldar engin langtímalán.

Rekstur og staðan í sveitafélaginu er góð og er gert ráð fyrir rekstrarafgangi upp á um 167 millj. á A- og B-hluta sjóðum á árinu 2024. Skuldahlutfallið í samanteknum reikningum er 61,36% en ef notað er skuldaviðmiðið skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitafélaga er talan 37,4%.

Í fjárhagsáætlun Snæfellsbæjar fyrir árið 2024 er gert ráð fyrir um 600 milljónum í fjárfestingar og skuldir lækkaðar enn frekar því engar lántökur eru áætlaðar.

Óska ykkur og fjölskyldum ykkar farsældar og friðar á nýju ári. Þakka samstarfið á árinu sem er að líða.

Björn Haraldur Hilmarsson

oddviti og forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar.