Áramótakveðja

Áramótapistill oddvita Sjálfstæðisflokksins á Akranesi

Ýmislegt hefur drifið á daga okkar hér á Akranesi á árinu sem senn er á enda. Fjárhags- og fjárfestingaáætlun átti sinn fasta sess í okkar vinnu á haustmánuðum en Akraneskaupstaður ekki farið varhluta af hækkandi vaxtastigi og verðbólgu í landinu, auk þess sem ýmis merki eru um að það sé að hægjast á uppbyggingu íbúða og atvinnuhúsnæðis sem hefur áhrif á tekjuhlið rekstrar sveitarfélagsins. Sérstakt áhygguefni er frumvarp Innviðaráðherra, sem liggur fyrir Alþingi um breytingar á reglum Jöfnunarsjóðs. Horfir nú sem framlög til Akraneskaupstaðar dragist verulega saman, án þess að verkefnum sé breytt. Vekur mikla furðu að athugasemdir bæjarstjórnar Akranes hafi nánast engu skilað í umsagnarferli frumvarpsins. Bæjarstjórn hefur fáa aðra kosti en að velta áhrifum þess yfir á íbúa og skerpa verulega á rekstri sínum. Það er ekki auðveld leið, því Akraneskaupstaður er með mjög hagkvæman rekstur og auknar álögur á íbúa ekki það sem við viljum standa að. Því er fjárhagsáætlun ársins 2024 varfærin og tekur mið af óvissu um þróun efnahagsmála, ekki síst vegna náttúruhamfara sem við öll verðum vitni af.

Fyrirhuguð er áframhaldandi sókn í atvinnuuppbyggingu í samstarfi við þróunarfélögin á Breið og Grundartanga í formi frekari styrkingu rannsóknar- og nýsköpunarstarfsemi sem félögin styðja þétt við. Uppbygging atvinnusvæðis í Flóahverfi er í fullum gangi. Jafnframt er fyrirhuguð uppbyggingu græns iðngarðs með hringrásarhugsun á Grundartanga, en Þróunarfélagið á Grundartanga og fyrirtæki á svæðinu hafa undirritað viljayfirlýsingu þess efnis. Verið er að skipuleggja Jaðarsbakkasvæðið þar sem stefnan er að rísi hótel, baðlón og heilsulind. Þá er fyrirhugað er að stofna miðlæga einingu fyrir Græna iðngarða í Flóahverfi, t.d. í formi klasafélags, sem mun leiða verkefni sem tengjast sameiginlegum rekstri fyrirtækja í iðngörðunum.

Á sama tíma og það er jafn brýnt og raun ber vitni að við sýnum nú áreiðanleika og staðfestu þá verðum við einnig og spila rétt úr þeim utanaðkomandi tækifærum til tekjuaukningar sem vel gætu komið til framkvæmda á næstu árum, jafnvel þó rekstrarumhverið sé nú, leyfi ég mér að segja, tímabundið óhagstætt.

Akranes er sannarlega samfélag í sókn, íbúum fjölgar jafnt og þétt en aldrei hefur jafn miklu fjármagni verið veitt til fjárfestinga og framkvæmda og við erum hvergi nærri hætt.

Ég þakka ykkur samstarfið á árinu sem senn á enda og hlakka til frekari kynna. Þá færi ég mínar bestu kveðjur frá flokksfélögum mínum af Skaganum.

Að lokum óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs, megi árið 2024 verða okkur öllum farsælt.

Líf Lárusdóttir, oddviti D-listans á Akranesi.